Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill láta reyna aftur á viðræður um myndun ríkisstjórnar með Viðreisn og Bjartri framtíð. Þetta sagði hann við fjölmiðla áður en að fundur formanna flokkanna hófst í dag. Mbl.is greinir frá.
Flokkarnir þrír fóru í stjórnarmyndunarviðræður í nóvember eftir að Bjarna hafði verið fært stjórnarmyndunarumboð af forseta Íslands. Um var að ræða fyrstu formlegu viðræðurnar sem ráðist var í eftir kosningarnar 29. október. Bjarni stöðvaði þær viðræður 15. nóvember síðastliðinn m.a. vegna þess að flokkur hans gat ekki sætt sig við að hluti aflaheimilda, 3-4 prósent, yrði boðinn upp á markaði til tekjuöflunar fyrir ríkissjóðs, samkvæmt heimildum Kjarnans. Auk þess var andstaða við málamiðlun í Evrópusambandsmálum innan flokksins, en Viðreisn og Björt framtíð vilja láta kjósa um áframhaldandi viðræður við sambandið. Til viðbótar vildi Bjarni mynda sterkari ríkisstjórn með sterkari meirihluta. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna viðræðuslitanna sagði hann að aðstæður á Íslandi „kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið.“
Eftir að fyrri tilraun til að mynda fimm flokka ríkisstjórn frá miðju til vinstri undir forystu Vinstri grænna rann út í sandinn hófust óformlegar viðræður um myndun þriggja flokka stjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar á ný. Í þetta skiptið virtist sátt ríkja á milli flokkanna um meginatriði við myndun nýrrar ríkisstjórnar en aftur dró Bjarni sig út úr viðræðunum, í þetta sinn til að hefja viðræður við Vinstri græn. Þær viðræður hafa nú siglt í strand.
Benedikt greindi síðar frá því að Bjarni hafi boðið Viðreisn að ganga inn í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Tilboðið hafi verið lagt fram í hádeginu síðastliðinn mánudag. Því var hafnað. Heimildir Kjarnans herma að á sama tíma hafi Bjartri framtíð verið gert tilboð um að slíta samstarfi sínu við Viðreisn og reyna að mynda ríkisstjórn með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki. Því tilboði var líka hafnað.