Hæstaréttardómarinn Markús Sigurbjörnsson átti hlutabréf í íslenska bankanum Glitni fyrir bankahrun. Virði bréfanna var upp á tugi milljóna króna en þau seldi hann með miklum hagnaði árið 2007. Frá þessu verður greint í Kastljósi í kvöld.
Í kynningu á umfjölluninni segir að dómarar við Hæstarétt séu æviráðnir og laun þeirra með því hæsta sem gerist hjá hinu opinbera til að tryggja sjálfstæði þeirra. „Eignist dómarar hlutabréf, ber þeim að tilkynna Nefnd um dómarastörf það - og séu þau meira en þriggja milljóna króna virði, verður dómarinn að fá heimild fyrir þeirri eign frá nefndinni. Engin gögn finnast hjá nefndinni um að Markús hafi tilkynnt um sölu hlutabréfanna árið 2007. Þá seldi hann þau fyrir 44 milljónir króna. Í kjölfarið fjárfesti hann í gegnum einkabankaþjónustu Íslandsbanka fyrir tæpar 60 milljónir króna. Engin tilkynning finnst um það heldur hjá nefndinni.“
Einnig verður fjallað um hlutabréfaeign hæstaréttardómara í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Í frétt vegna þeirrar umfjöllunar á Vísi segir að dómarinn sem um ræðir hafi átt í umfangsmiklum hlutabréfaviðskiptum á árunum fyrir hrun, þar á meðal með bréf í íslenskum bönkum. Hann hafi samt sem áður dæmt í málum sem tengjast þessum bönkum án þess að víkja sæti.