Hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Ingveldur Einarsdóttir, Árni Kolbeinsson (sem er hættur) og Markús Sigurbjörnsson áttu öll hlut í Glitni á árunum 2007 og 2008. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þá greindi Kastljós frá því í gær að Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem gegnt hefur embætti hæstaréttardómara frá árinu 2003, hafi einnig átt hlutabréf í Glitni um tíma á árinu 2007. Hann seldi bréf sín í lok þess árs og fjárfesti í peningamarkaðssjóði innan Glitnis. Markús seldi sín bréf einnig í byrjun árs 2008 og kom ávinningnum auk viðbótarfé, alls um 60 milljónum króna, fyrir í eignastýringu hjá Glitni. Auk þess áttu Markús og Ingveldur hlut í peningamarkaðssjóðum Glitnis þegar bankarnir féllu. Hlutabréf dómaranna sem enn áttu slík við hrunið urðu öll verðlaus þegar Glitnir féll haustið 2008.
Allir dómararnir hafa samt sem áður dæmt í málum sem tengjast Glitni, bæði fyrir og eftir hrun. Þar á meðal eru sakamál gegn starfsmönnum eignastýringar Glitnis. Dómararnir lýstu ekki yfir vanhæfi í neinu þeirra mála.
Fyrst var greint frá hlutabréfaeign Markúsar og Ólafs Barkar í fréttum Stöðvar 2 og síðan í Kastljósi í gær. Dómurum er skylt að upplýsa nefnd um dómarastörf um hlutabréfaeign sína. Í Kastljósi sagði Hjördís Hákonardóttir, formaður þeirrar nefndar, að það yrði á engan hátt ráðið að Markús hefði tilkynnt nefndinni um hlutabréfaeign sína né sóst eftir heimild til viðskipta sinna eins og lög kveða á um. Markús sagði sjálfur í svari til Kastljóss að hann hefði tilkynnt og óskað heimildar fyrir eignarhlut sínum árið 2002 og að hann hafi fengið hlutabréfin í arf. Það sjáist á bréfum sem hann hafi sent þáverandi formanni nefndarinnar, Gunnlaugi Claessen. Auk þess hafi hann tilkynnt þáverandi formanni nefndarinnar um það þegar bréfin í Glitni voru seld 2007. Þau gögn finnast ekki hjá nefndinni, en formaður nefndarinnar hverju sinni geymir öll skjöl hennar.
Kastljós rifjaði upp að vefmiðillinn Eyjan hafi árið 2010 sent spurningar til allra þáverandi dómara við Hæstarétt þar sem óskað var upplýsinga um hlutabréfaeign þeirra fyrir hrun og möguleg áhrif á hæfi til að dæma í hrunmálunum. Ólafur Börkur var einn þriggja sem svöruðu. Í endursögn Eyjunnar var svar hans eftirfarandi: „Ómögulegt sé að vita hverjir verði í málaferlum vegna bankahrunsins og því erfitt að meta nokkuð um hæfi. Hann segist þó auðvitað víkja sæti ef lög leyfa. Ólafur segir fjármálaumsvif fjölskyldu sinnar nánast engin. Honum hafi tæmst lítill arfur á síðustu árum og þar hafi verið hlutabréf sem hann hafi selt í kjölfarið. Var það fjármagn einkum notað til viðhalds heimilis Ólafs og fjölskyldu. Þá hafi tvö barna hans átt litla eignarhluti í Kaupþingi upp á nokkur þúsund krónur sem hafi tapast.“ Í svarinu kemur ekki fram að Ólafur Börkur hafi átt hluti í Glitni.
Markús sagðist í svari til Kastljóss ekki hafa verið vanhæfur til þess að dæma í málum sem snúa að hruni fjármálakerfisins þrátt fyrir að hafa verið eigandi hlutabréfa Glitnis og fleiri íslenskra fyrirtækja fyrir hrunið. Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, tók undir það í tíufréttum RÚV í gær þar sem hann sagði að ekkert hafi komið fram í umfjöllun Kastljóss um hlutabréfaviðskipti forseta Hæstaréttar sem bendi til þess að hann hafi verið vanhæfur í dómsmálum sem tengjast Glitni. Hann setti einnig spurningamerki við að upplýsingar um hlutabréfaeign dómara verði aðgengilegar almenningi og benti á að þeir þyrftu að njóta einhverrar friðhelgi líkt og aðrir einstaklingar.