„Endurheimt trausts er í senn möguleg og brýn. Nú er lag að auka vegsemd þingsins og virðingu – takast vissulega á í þingsal, deila hart ef svo ber undir, en bæta vinnubrögðin, viðmótið, reglur og þingsköp. Um leið skulum við halda í heiðri góðar hefðir og venjur, læra af sögunni, hafa víti til varnaðar.“ Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, við þingsetningu Alþingis í dag.
Þetta var fyrsta þingsetning Guðna frá því að hann var kjörinn í embætti forseta Íslands í sumar. Hann ræddi um þær óvenjulegu aðstæður sem Alþingi kemur nú saman við, þar sem ekki hefur enn tekist að mynda nýja ríkisstjórn. Hann talaði einnig um Kristján Eldjárn, þriðja forseta Íslands, en öld er í dag frá fæðingu hans. „Ekki er örgrannt um að almenningi hafi þótt til vansa hve illa þinginu gekk að mynda ríkisstjórnir síðustu ár Kristjáns Eldjárns á forsetastóli,“ sagði Guðni, en áfram hafi kjósendur þó treyst Alþingi.
„Sú er því miður ekki raunin um okkar daga. Fleira hrundi en bankar haustið 2008. Fólki fannst þingið hafa brugðist. Þótt margt hafi breyst til batnaðar er ljóst að ekki hefur skapast á ný það traust sem þarf að ríkja milli þings og þjóðar. Íslendingar dæma alþingismenn af verkum þeirra, framkomu og starfsháttum.“ Úrbóta væri þörf í þingsalnum, og um það væru margir sammála. „Deiluefni þurfa ítarlega umræðu en málþóf vekur furðu fólks og andúð. Meirihluti þarf að hafa úrslitavald en þeir sem eru í minnihluta verða að geta haft áhrif á gang mála.“
Guðni gerði einnig að umtalsefni hversu margir nýir þingmenn væru nú komnir til starfa á Alþingi. Aldrei áður hafi eins margir nýliðar sest á þing, rúmlega helmingur þingmanna. Aldrei hafi þingreynsla verið eins lítil, aldrei hafi eins margar konur verið í þingheimi og líklega hafi bakgrunnur þingmanna aldrei verið eins fjölbreyttur.