Sex konur eru þingflokksformenn jafn margra flokka, en allir flokkarnir hafa nú tilkynnt um þingflokksformenn sína, en það var gert formlega á fyrsta fundi Alþingis í dag.
Birgitta Jónsdóttir er þingflokksformaður Pírata, Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar og Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður VG. Björt Ólafsdóttir er þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, Þórunn Egilsdóttir er þingflokksformaður Framsóknar og Hanna Katrín Friðriksson er þingflokksformaður Viðreisnar. Guðlaugur Þór Þórðarson er eini karlmaðurinn á meðal þingflokksformanna, en hann er það fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Einnig var kosið í tvær fastanefndir Alþingis, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, til bráðabirgða. Haraldur Benediksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er formaður fjárlaganefndar, Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er varaformaður og Theodóra Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar annar varaformaður. Aðrir nefndarmenn eru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir í VG, Björn Leví Gunnarsson í Pírötum, Guðlaugur Þór Þórðarson í Sjálfstæðisflokknum, Silja Dögg Gunnarsdóttir í Framsóknarflokknum, Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar er formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er varaformaður og annar varaformaður er Eva Pandora Baldursdóttir þingmaður Pírata. Aðrir nefndarmenn eru Björt Ólafsdóttir í Bjartri framtíð, Elsa Lára Arnardóttir Framsóknarflokki, Katrín Jakobsdóttir formaður VG, Logi Már Einarsson formaður Samfylkingarinnar, Sigríður Andersen og Vilhjálmur Bjarnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins.