Viðræður Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, hafa gengið vel og eru flokkarnir að reyna að nálgast áherslur í meginmálaflokkunum. Nú er verið að kafa ofan í fjárlög og meta stöðuna.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá formönnum flokkanna fimm, en Birgitta Jónsdóttir fékk stjórnarmyndunarumboðið fyrir hönd Pírata 2. desember síðastliðinn og hafa síðan verið í gangi óformlegar viðræður milli flokkanna. „Með vísan til fyrri yfirlýsingar var strax leitast eftir að ná samstöðu um að halda áfram stjórnarmyndunarviðræðum við Bjarta framtíð, Viðreisn, Vinstrihreyfinguna grænt framboð og Samfylkinguna. Nú hafa verið haldnir fjórir fundir með það að markmiði að finna leiðir til að samþætta megináherslur flokkanna. Þessar viðræður hafa gengið vel og hafa fulltrúar flokkanna nálgast hvern annan í veigamiklum málum,“ segir í yfirlýsingunni.
Í henni segir ennfremur að megináherslan í viðræðunum snúi að rekstri ríkissjóðs. „Við höfum aðallega einbeitt okkur að tekju og útgjaldaliðum og höfum nú loks fengið aðgang að fjárlögum ásamt ýmsum forsendum fjárlaga til að geta forgangsraðað í samræmi við veruleika framlagðra fjárlaga. Við munum halda áfram að funda á morgun og um helgina á óformlegan hátt og er næsti fundur fyrirhugaður fyrir hádegi á morgun. Við munum upplýsa um niðurstöður þeirra funda með sameiginlegri yfirlýsingu þegar tilefni er til,“ segja formenn flokkanna, þau Benedikt Jóhannesson frá Viðreisn, Birgitta Jónsdóttir Pírötum, Katrín Jakobsdóttir Vinstri grænum, Logi Einarsson Samfylkingunni og Óttarr Proppé Bjartri framtíð.