Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er í litlu sambandi við örlög venjulegs fólks í landinu og er því ekki „líklegri til þess að geta leitt þjóðina í samfélagi réttlætis og kærleika en einfættur maður að spila fótbolta í meistaradeild.“ Þetta skrifar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Kári segir Bjarna forðast áleitnar spurningar í fjárlagafrumvarpi sínu fyrir næsta ár eins og heitan eldinn. „Til dæmis hvernig beri að færa við uppgjör ríkisfjármála 75.000 klukkutíma af sársauka og 100.000 klukkutíma af annarri vanlíðan sem hefði verið hægt að forðast með því að hlúa betur að Spítalanum, 300 ónauðsynlega dauðdaga fyrir aldur fram og óteljandi klukkutíma af sorg og angist þeirra sem eftir lifðu.“
Kári biðlar til Alþingis í grein sinni og segir að þjóðir krefjist þess að þingmenn lesi fjárlagafrumvarpið „í tætlur, sem víti til varnaðar“. Hann segir að heilbrigðiskerfið sé í rugli og nýjustu kannanir bendi til þess að menntakerfið sé í engu betri málum, og það hafi aldrei verið erfiðara fyrir ungt fólk að kaupa sitt fyrsta húsnæði. „Venjulegir launþegar á Íslandi eru verr settir en oft áður vegna þess að velferðarkerfið hefur verið vanrækt. Fjármálaráðherra gleymist að það gerist svo ótrúlega margt utan debit og kredit dálka ríkisfjármála af þeirri gerð sem ærlegt fólk vill að sé gert upp í lok árs eins og 2017.“
Hann segir það engum vafa undirorpið að fólk þjáist og deyi jafnvel af völdum þess hvað spítalinn sé illa í stakk búinn til að sinna því. Þjóðin krefist þess að þetta sé lagað, en Bjarni hunsi þá kröfu þjóðarinnar í fjárlagafrumvarpinu, sem þó gerir ráð fyrir því að ríkissjóður skili 28 milljarða króna afgangi.
„Ef þú átt í einhverjum erfiðleikum með að hafna frumvarpinu mundu að fyrir nokkrum dögum sótti 100 ára gömul kona í okkar samfélagi um vist á hjúkrunarheimili og var sett á biðlista. Það er lítil huggun að því að þau nákvæmu gögn sem við eigum í íslensku samfélagi um lífslíkur fólks benda til þess að hún verði þar ekki mjög lengi.“