Nú klukkan 19:30 hófst fundur forystumanna Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Pírata á Alþingi. Þegar fundi þeirra lýkur verða haldnir þingflokksfundir í öllum þessum flokkum þar sem farið verður yfir stöðu mála eftir óformlegar viðræður flokkanna fimm undanfarna daga.
Það skýrist væntanlega í kvöld eða fyrramálið hvort haldið verður áfram og farið í formlegar viðræður. Í dag hefur verið unnið að lausn í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og er það meðal annars til umræðu á fundunum í kvöld.
Fulltrúar þessara flokka hafa verið misbjartsýnir á framhaldið um helgina. Þannig hafa Píratar verið mjög jákvæðir, og Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður sagði í Vikunni á föstudag að það væru 90% líkur á að stjórn þessara flokka yrði að veruleika. Fulltrúar VG hafa ekki verið eins bjartsýnir.
Birgitta segir við RÚV í dag að það muni liggja fyrir í kvöld eða í síðasta lagi á morgun hvort af formlegum viðræðum verður eða hvort hún skilar umboðinu til að mynda ríkisstjórn til forseta Íslands.