Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi formaður hans, hefur boðið Framsóknarmönnum í kjördæmi hans til veislu á Akureyri í tilefni af 100 ára afmæli flokksins. Veislan fer fram á sama tíma og 100 ára afmælishátíð flokksins fer fram í Þjóðleikhúsinu, næstkomandi föstudagskvöld.
Fjölmiðlar hafa sagt frá þessari veislu Sigmundar Davíðs, og hafa greint frá því að óánægja sé með þetta útspil Sigmundar Davíðs og því velt upp hvort þetta jafngildi úrsögn hans úr flokknum. Hann vísar þessu á bug í færslu á Facebook-síðu sinni.
Sigmundur Davíð talar um fréttaflutning Vísis af málinu sérstaklega og segir að þar hafi birst „dæmalaust vitlaus „frétt“ eða ritgerð á Vísi sem virðist fyrst og fremst snúast um hugrenningar eða skoðanir blaðamannsins. 100 ára stjórnmálaflokkur ætti að sjá í gegnum slíkt.“ Sigmundur Davíð listar einnig upp ýmsa viðburði sem haldnir verði vegna afmælisins, meðal annars þann sem hann hefur boðið til á Akureyri.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gagnrýnir einnig fréttaflutning af málinu, og segir að vefsíðan kaffid.is, sem sagði fyrst frá veisluhöldum Sigmundar Davíðs, sé „kjaftasíða.“ Því sé stillt upp sem stríðsyfirlýsingu Sigmundar að halda veisluna, en „þá er væntanlega skollin á heimsstyrjöld því framsóknarmenn í Skagafirði halda uppá þetta merka afmæli sama dag.“ Hann og Elsa Lára, þingmenn flokksins í Norðvesturkjördæmi, hafi boðað komu sína norður „og ekki erum við á leið úr flokknum. Lengi var óljóst hvernig hátíðarhöldum flokksins yrði háttað og skilaboðin sem komu frá formanni flokksins voru þau að gera sem mest úr deginum sem víðast! Það er í raun ótrúlegt að fjölmiðlar skuli hlaupa á eftir kjaftagangi og bulli,“ skrifar Gunnar Bragi.