Einn af hverjum tíu Íslendingum, alls um 25 þúsund manns, fóru ekki til tannlæknis á árinu 2015 þegar þau þurftu vegna kostnaðar. Hlutfallslega neita margir sér um læknisþjónustu á Íslandi vegna kostnaðar í samanburði við önnur Evrópulönd. Þetta kemur fram í félagsvísum Hagstofu Íslands sýna hlutfallslega áætlun á því hvort Íslendingar neiti sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar.
Þar kemur fram að fjórar af hverjum hundrað konum og tveir af hverjum hundrað körlum neituðu sér um þjónustu læknis eða sérfræðings í fyrra. Samtals er um að ræða um átta þúsund manns. Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að kostnaður sé meiri fyrirstaða hjá tækjulægri hópum en þeim tækjuhærri. Í frétt um samatektina segir: „Hlutfallslega margir á Íslandi neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar miðað við önnur Evrópuríki sé tekið mið af nýjustu samanburðartölum sem eru frá árinu 2014 en þá fór ríflega 3 prósent Íslendinga ekki til læknis vegna kostnaðar sem var sjötta hæsta hlutfallið í Evrópu.“
Fjórði hver atvinnulaus fer ekki til tannlæknis vegna kostnaðar
Enn hærra hlutfall Íslendinga neitar sér um það að fara til tannlæknis vegna kostnaðar, þrátt fyrir að þurfa á tannlæknisheimsókn að halda. Í tölum Hagstofunnar kemur fram að um 25 þúsund manns, tíu prósent fullorðinna á Íslandi, hafi ekki farið til tannlæknis í fyrra vegna kostnaðar. Líkt og við er að búast neita tækjulægri sér frekar um tannlæknaheimsókn en tekjuhærri. Í frétt Hagstofunnar um málið segir að á heildina litið sé hlutfall þeirra sem fóru ekki til tannlæknis hérlendis þrátt fyrir að þurfa þess hátt í evrópskum samanburði. „Hlutfall kvenna sem ekki fór til tannlæknis vegna kostnaðar reyndist vera það fjórða hæsta í Evrópu og hlutfallið meðal karla það fimmta hæsta.“
Hagstofan kannaði líka hvernig ástandið væri á meðal atvinnulausra. Þar kom í ljóst að jórði hver atvinnulaus landsmaður fór ekki til tannlæknis árið 2015 vegna þess að það var of dýrt. Það er fjórða hæsta hlutfallið í Evrópu. „ Næst á eftir atvinnulausum eru hæstu hlutföll þeirra sem neita sér um tannlæknaþjónustu að finna hjá fólki sem er á vinnualdri en ekki á vinnumarkaði, til dæmis námsmenn, öryrkjar eða heimavinnandi. Um 17 prósent kvenna utan vinnumarkaðar á Íslandi fór ekki til tannlæknis sökum efna árið 2014 og deilir Ísland þar hæsta hlutfallinu með Portúgal og Lettlandi. Meðal karla var hlutfallið á Íslandi um 13 prósent, sem er annað efsta hlutfallið á listanum á eftir Lettlandi (18 prósent).“