Umræður um fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár voru talsvert styttri við fyrstu umræðu en hefur tíðkast undanfarin ár. Þingmenn ræddu fjárlagafrumvarpið í ríflega fimm klukkustundir og tuttugu mínútur áður en frumvarpinu var vísað til umfjöllunar í fjárlaganefnd, þar sem það er nú.
Sextán þingmenn héldu ræður við fyrstu umræðu fjárlagafrumvarpsins fyrir utan Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, sem er líka heldur minna en oft áður.
Til samanburðar voru voru umræðurnar aldrei undir sextán klukkutímum í fyrstu umræðu á síðasta kjörtímabili, og á kjörtímabilinu þar á undan fór einnig yfirleitt miklu lengri tími í umræður um fjárlög en nú var.
Aðstæður eru óvenjulegar í þinginu nú um stundir, eins og hefur verið margítrekað, og líklegt að það hafi haft þessi áhrif á lengd umræðutímans, þar sem ráðherrann sem leggur fram frumvarpið hefur ekki meirihluta á bak við sig, og að sama skapi ekki ljóst hvaða flokkar koma til með að mynda ríkisstjórn.
Fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd eru nú með fjárlagafrumvarpið og ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins til umfjöllunar. Frestur til að skila athugasemdum er út daginn á morgun.