Lögmaður Ólafs Ólafssonar og Guðmundar Hjaltasonar segir að allt í kringum rannsóknarferlið á aðkomu þýska bankans Hauck&Aufhäuser að kaupum S-hópsins á hlut í Búnaðarbankanum á sínum tíma sé „undarlegt, fordæmalaust og byggt á órökstuddum dylgjum.“ Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögmaðurinn, Gísli Guðni Hall, sendi til fjölmiðla í dag fyrir hönd umbjóðenda sinna. Þeir hafa báðir verið kallaðir fyrir sem vitni vegna rannsóknarinnar.
Tilkynningin er send vegna fréttaflutnings um framlagningu þingsályktunartillögu um að frestur rannsóknarnefndar um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8 prósent eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf., verði framlengdur. Kjarninn greindi frá tillögunni í gærkvöldi. Í skýrslu nefndarinnar um framgang rannsóknarinnar til þingsins, sem skilað var 8. desember, er lagt til frestur til að skila skýrslu verði ekki fyrir 31. desember næstkomandi heldur frekar eins fljótt og verða má. Ástæðan fyrir frestuninni er vitni sem boðuðu höfðu verði til skýrslutöku 11. nóvember 2016 höfnuðu því að mæta. Vitnin eru Ólafur Ólafsson og Guðmundur Hjaltason. Í ljósi þessa óskaði nefndi eftir því að vitnin tvö yrðu kvödd fyrir héraðsdóm sem vitni til þess að svara spurningum um rannsóknina.
Í greinargerðinni segir að viðbrögð vitnanna við óskum rannsóknarnefndarinnar um upplýsingar hafa leitt til þess að tafir hafa orðið á störfum rannsóknarnefndarinnar og fyrirsjáanlegt er að nefndinni mun ekki takast að ljúka rannsókninni innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í ályktun Alþingis. Henni átti áður að ljúka fyrir árslok.
Í tilkynningu lögmanns mannanna tveggja segir að Ólafur og Guðmundur hafi nýtt sér rétt sinn til að mæta frekar fyrir dómara en til skýrslugjafar hjá rannsóknarnefndinni, samkvæmt heimildarákvæði í lögum um rannsóknarnefndir Alþingis. Þeir hafi síðan mætt til héraðsdóms samkvæmt boðunum. „Við fyrirtöku málsins lögðu þeir fram skriflega bókun, þar sem þeir kröfðust úrskurðar dómara um hvort lögmætt tilefni hafi verið til skipunar nefndarinnar. Þeir benda m.a. á að eftirlit Alþingis taki til framkvæmdavaldsins, en ekki lögskipta einstaklinga af einkaréttarlegum toga. Ekki fái heldur staðist að þegar mál sem varða einstaklinga eru fyrnd, og þar af leiðandi ekki skilyrði til rannsóknar þeirra samkvæmt almennum reglum, að þá ákveði þingmenn, á pólitískum forsendum, að skipa rannsóknarnefnd í staðinn. Allt í kringum þetta rannsóknarferli er undarlegt, fordæmalaust og byggt á órökstuddum dylgjum. Nánari röksemdir Ólafs og Guðmundar hafa verið færðar fram fyrir héraðsdómi og er úrskurðar að vænta fljótlega.“
Búnaðarbankinn var seldur til svonefnds S-hóps 16. janúar 2003. Hópurinn var leiddur af þeim Ólafi Ólafssyni og Finni Ingólfssyni, fyrrverandi varaformanni og ráðherra Framsóknarflokksins. Aðrir lykilmenn í hópnum voru Kristján Loftsson, oftast kenndur við Hval, Margeir Daníelsson, Jón Helgi Guðmundsson, oftast kenndur við Byko, og lögmaðurinn Kristinn Hallgrímsson.
Aðkoma Hauck & Aufhauser að kaupunum var þannig að bankinn keypti hlut í félaginu Eglu, sem Ólafur átti einnig í, og var eitt þeirra sem keypti hlut í Búnaðarbankanum. Guðmundur var framkvæmdastjóri Eglu. Rúmum tveimur árum eftir að Hauck & Aufhauser keypti hlut í Eglu, og þar af leiðandi í Búnaðarbanka, var bankinn búinn að selja hann allan til annarra aðila innan S-hópsins.
Um tveimur mánuðum eftir að S-hópurinn keypti Búnaðarbankann hófust viðræður um að sameina hann og Kaupþing. Eftir að sú sameining gekk í gegn varð sameinaður banki stærsti banki landsins og hópurinn sem stýrði honum gerði það þangað til að hann féll í október 2008, og skráði sig á spjöld sögunnar sem eitt stærsta gjaldþrot sem orðið hefur.