Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur lækkað meginvexti sína um 0,25 prósentustig og eru þeir nú fimm prósent.
Í frétt frá nefndinni segir að ákvörðun peningastefnunefndar um lækkun vaxta sé tekin með hliðsjón af síðustu spá Seðlabankans að viðbættum nýjum upplýsingum. „Gengi krónunnar hefur hækkað um 1½% frá síðasta fundi nefndarinnar og er nú þegar orðið nokkru hærra en spáð var að það yrði að meðaltali á næsta ári. Þá er samsetning hagvaxtar hagstæðari en spáð var í nóvember að því leyti að útflutningur og atvinnuvegafjárfesting vega þyngra. Hvort tveggja hefur áhrif á áhættumat nefndarinnar. Sem fyrr er töluverð óvissa um stefnuna í ríkisfjármálum, en aðhald hennar hefur slaknað nokkuð undanfarin tvö ár og enn er óljóst hver efnahagsstefna næstu ríkisstjórnar verður. Þá gætir áfram óróa á vinnumarkaði og óvissa er um áhrif næstu skrefa við losun fjármagnshafta.
Kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið virðist hafa styrkst og aðhald peningastefnunnar að einhverju leyti aukist í gegnum hækkun gengis krónunnar. Það gefur nefndinni svigrúm til að lækka nafnvexti nú. Eigi að síður kalla kröftugur vöxtur eftirspurnar og ofangreindir óvissuþættir á varkárni við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.“
Vextir síðast lækkaðir í ágúst
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði vexti bankans síðast um 0,5 prósentur í lok ágúst. Meginvextir bankans fóru þá úr 5,75 prósentum í 5,25 prósent. Meginvextir bankans höfðu haldist óbreyttir frá því að þeir voru hækkaðir í 5,75 prósent í nóvember 2015.
Seðlabankinn hafði þá legið undir ámæli fyrir að lækka ekki vexti í ljósi þess að verðbólga hafði nú verið undir verðbólgumarkmiði hans síðan í febrúar 2014. Hún er enn undir því markmiði og mælist nú 2,1 prósent.
Ákvörðun peningastefnunefndarinnar í ágúst hafði þau áhrif að breytilegir vextir viðskiptavina fjármálastofnanna lækkuðu og þau kjör sem þær bjóða nýjum lántakendum.