Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir í viðtali við Bloomberg að hætta sé á því að íslenska hagkerfið ofhitni með tilheyrandi niðursveiflu í hagkerfinu. „Þetta er eins og þegar maður er í partýi og þarf að fara slaka á,“ sagði Már eftir að ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, um að lækka meginvexti úr 5,25 í 5 prósent, var tilkynnt.
Már segir að aðstæður nú minni um margt á stöðuna eins og hún var í aðdraganda erfiðleikana á árið 2008. Hættan á því að hagkerfið ofhitni hafi aukist mikið. Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi þessa árs, miðað við sama tíma í fyrra, var ríflega tíu prósent samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Munar þar ekki síst um mikla aukningu í ferðþjónustu og gjaldeyristekjur sem fylgja tíðum heimsóknum erlendra ferðamanna. Útlit er fyrir að fjöldi ferðamanna fari yfir 1,7 milljónir á þessu ári og spár gera ráð fyrir miklum vexti á næsta ári, eða um ríflega 500 þúsund heimsóknir.
Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hefur styrkst hratt undanfarin misseri og dregið þannig úr verðbólguþrýstingi og ýtt undir aukna einkaneyslu og innflutning.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans á dögunum, hefur fasteignaverð á Íslandi hækkað mun hraðar og meira en í nær öllum þróuðum ríkjum heimsins að undanförnu. Á síðustu fimm árum hefur verðið hækkað að meðaltali um 50 prósent, sé miðað við fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu.
Már segir að það sé nú stjórnmálamanna að koma í veg fyrir harkalega lendingu, þar sem stjórn ríkisfjármála skipti miklu máli við þessar aðstæður sem nú eru uppi. Í byrjun næsta árs mun skýrast hversu hratt verður hægt að losa um fjármagnshöft, í takt við stefnu Seðlabankans, en það kallar á lagasetningu og pólitíska stefnumörkun. „Það verður að vera ríkisstjórn,“ sagði Már.