Í frumvarpi til fjáraukalaga, sem dreift var á Alþingi í gærkvöldi, er lagt til að 100 milljónum króna viðbótarframlagi verði veitt úr ríkissjóði til „Matvælalandsins Íslands“, verkefnis sem er ætlað að „treysta orðspor og móta ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla og auka með því móti gjaldeyristekjur þjóðarinnar.“
Ástæða viðbótarframlagsins, sem er lagt til af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, er sú að gera verkefninu kleift að standa fyrir sérstöku markaðsátaki á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar innanlands. Í frumvarpinu segir: „Mikill taprekstur er á sölu sauðfjárafurða og þrátt fyrir lækkun á verði sláturleyfishafa til bænda fyrir sauðfjárafurðir er frekari aðgerða þörf. Markaðsráð kindakjöts, sem er samstarfsvettvangur bænda og sláturleyfishafa, hefur unnið markvisst að því að finna nýja markaði erlendis, en ljóst er að afsetja þarf um 800 til 1.000 tonn til að koma í veg fyrir uppnám og almenna verðfellingu á kjöti á innlendum markaði seinnipart vetrar og/eða næsta haust.“
Því er ljóst að skattgreiðendur eiga að borga 100 milljónir króna úr sameiginlegum sjóðum sínum til að halda uppi hærri verði á kindakjöti á innanlandsmarkaði. Í frumvarpinu er tiltekið að þessi afsetning á offramleiddu kindakjöti sé hugsuð sem skammtímalausn, en að jafnframt sé „verið að byggja á langtíma áætlunum í sölu á kindakjöti bæði innanlands og erlendis.“
Framleiðslan þegar niðurgreidd um fimm milljarða
Sauðfjárrækt nýtur nú þegar umtalsverðs stuðnings úr ríkissjóði. Á fjárlögum ársins 2017 er gert ráð fyrir að niðurgreiðsla á sauðfjárframleiðslu nemi tæpum fimm milljörðum króna. Auk þess festa nýgerðir búvörusamningar, sem gilda til tíu ára, í sessi mjög háa tollvernd á kindakjöti.
Nú þegar er umtalsverður hluti af sauðfjárframleiðslu á Íslandi fluttur út og með því eru íslenskir skattgreiðendur í raun að niðurgreiða kjöt ofan í erlenda neytendur. Í Fréttablaðinu í síðustu viku var greint frá því að verð fyrir sauðfjárafurðir á erlendum mörkuðum hefði hrunið vegna styrkingu krónunnar og lokunar markaða. Þar kom fram að nokkuð ljóst væri að verið sé að greiða með útflutningi á kjötinu.
Auk þess hefur neysla Íslendinga á kindakjöti dregist gríðarlega saman á undanförnum áratugum. Árið 1983 borðuðu Íslendingar 45,3 kíló hver af kindakjöti á ári. Í fyrra var sú tala komin í 19,5 kíló. Á sama tíma hefur neysla á kjúklingi og svínakjöti aukist verulega.
Segja bændur taka á sig 600 milljónir vegna þrenginga
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður markaðsráðs kindakjöts, sendi frá sér tilkynningu í dag vegna málsins. Þar segir að tilgangur hins sérstaka framlags ríkissjóðs sé að „vernda störf út um landið og koma í veg fyrir alvarlega byggðaröskun. Markaðsráð Kindakjöts kemur að verkefninu til að tryggja að féð nýtist í áframhaldandi markaðssetningu á erlendum mörkuðum.“ Íslenskur landbúnaður velti um 70 milljörðum króna árrlega og skapi tíu til tólf þúsund bein og óbein störf um land allt.
Í tilkynningunni segir einnig að mikil styrking krónunnar hafi valdið þrengingum hjá öllum útflutningsgreinum á Íslandi. „ Þá hefur viðskiptadeila Vesturveldanna og Rússlands leitt til verðlækkunar á mörkuðum fyrir ýmsar landbúnaðarafurðir í Evrópu. Flest bendir til þess að þetta sé tímabundin niðursveifla. Verð á kindakjöti á heimsmarkaði hefur lækkað undanfarna mánuði en virðist nú vera á uppleið.[...]Íslenskir sauðfjárbændur tóku á sig um 600 milljóna kr. tekjuskerðingu í haust vegna ástandsins á heimsmarkaði. Rétt er að hafa í huga að bændur hafa þegar lagt út fyrir nánast öllum framleiðslukostnaði og innt af hendi nánast alla þá vinnu sem til þarf. Engin opinber verðlagning er í sauðfjárrækt á Íslandi. Kvótakerfi var afnumið 1995 og útflutningsbætur aflagaðar 1992.“
Þórarinn segir að sala á íslensku lambakjöti hafi gengið ágætlega innanlands og erlendis þar sem afurðirnar eru sérstaklega merktar sem íslenskar. „Þar sem verið er að selja kjöt eða aðrar afurðir án upprunatengingar inn á heimsmarkaði er verðið hins vegar sveiflukenndara. Það er nokkuð algengt að þjóðir grípi til aðgerða ef hætta á er á hruni í einstaka greinum, gjaldþrotum afurðastöðva, atvinnuleysi eða byggðaröskun vegna slíkra tímabundinna sveiflna.“
Fréttin var uppfærð klukkan 13:27 eftir að tilkynning formanns markaðsráðs kindakjöts barst.