Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að bandarísk stjórnvöld þurfi að bregðast við tölvuárásum Rússa, og það muni þau gera. „Við munum velja réttan tíma til þess,“ sagði Obama í útvarpsviðtali við National Public Radio (NPR).
Leyniþjónusta Bandaríkjanna CIA telur að óyggjandi sannanir liggi fyrir um það, að rússneskir tölvuhakkarar hafi staðið fyrir tölvuárásum í Bandaríkjunum í aðdraganda forsetakosninganna sem fóru fram 8. Nóvember. Sem kunnugt er sigraði Donald J. Trump, frambjóðandi Repúblikana, í kosningunum. „Ég held að enginn velkist í vafa um það, að þegar einhver erlend stjórnvöld reyni að hafa áhrif á kosningar hér í landi, þá þurfum við að gera eitthvað í málinu og við munum gera það,“ sagði Obama.
Grunur leikur á því, samkvæmt CIA, að rússneskir tölvuhakkarar hafi meðal annars gert tölvuárásir í aðdraganda forvals Repúblikana á landsfundi flokksins, þar sem Trump var útnefndur, og einnig hafi þeir komist yfir trúnaðargögn frá John Podesta, sem stýrði kosningaherferð Hillary Clinton. Gögnum var síðan lekið til Wikileaks sem birti þau að hluta.
Podesta hefur sjálfur sagt að eitthvað sé að innan alríkislögreglunnar FBI sem hafi búið yfir gögnum um tölvuárásirnar en samt ekkert gert í málunum, annað en að skaða framboð Hillary Clinton með innistæðulausum ásökunum. Frá þessu greindi hann meðal annars í greiní grein í Washington Post í gær.
Obama sagði í viðtalinu við NPR að líklega hafi aðeins völdum gögnum verið lekið, með það fyrir augum að hafa áhrif á gang mála í aðdraganda kosninganna, en mikið magn gagna sé nú í fórum þeirra sem stóðu fyrir árásunum.
Donald Trump hefur gert lítið úr árásunum og meðal annars gagnrýnt CIA fyrir að tjá sig um þær, án þess að þó að vita hvaða gögn það eru sem stofnunin býr yfir. Obama hefur ítrekað að málin verði rannsökuð og við þeim brugðist með viðeigandi hætti.