Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi formaður hans, brást illa við þegar fréttamaður RÚV spurði hann um ástæður þess að hann hafi ekki mætt í vinnuna það sem af er þingi, en Sigmundur Davíð er eini þingmaður landsins sem hefur ekki mætt á þingfundi á þessu kjörtímabili. Hann ásakaði RÚV og fréttamanninn um að vera með reiði í sinn garð, sleit svo viðtalinu og gekk í burtu. Viðtalið hefur nú verið birt í heild sinni á vef RÚV.
Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður RÚV á Akureyri, tók viðtal við Sigmund Davíð í gær á hátíð sem haldin var vegna 100 ára afmæli flokksins. Á sama tíma fór fram afmælishátíð í Þjóðleikhúsinu þar sem flestir þingmanna og forystumanna Framsóknarflokksins voru samankomnir. Í gærkvöldi birti RÚV hluta viðtalsins þar sem sem Sigmundur Davíð svaraði flestum spurningum um stöðuna sem upp er komin í Framsóknarflokknum – en miklir samstarfsörðuleikar eru milli hans og forystu flokksins – með því að segja að RÚV bæri mesta ábyrgð á þeim flokksátökum sem ættu sér stað.
Nú hefur RÚV birt allt viðtalið á vef sínum. Þar var Sigmundur Davíð einnig spurður út í fjarveru sína úr vinnu, en Sigmundur Davíð hefur ekki mætt í þingsal til þingstarfa það sem af er kjörtímabili. Hann er eini þingmaðurinn sem hefur ekki gert það. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokks, mætti við þingsetningu en kallaði svo inn varamann fyrir sig vegna veikinda.
Aðspurður um af hverju hann hefur ekki mætt í vinnuna gerði Sigmundur Davíð athugasemd við nálgun fréttamanns RÚV á viðtalið við hann. Þegar fréttamaður sagði að sér þætti það eðlileg spurning að spyrja í ljósi þess að hann hefði ekkert mætt í vinnuna. „Þá geturðu beðið mig um viðtal um það. Þú kemur ekki hingað og biður mig um viðtal um afmæli flokksins og kemur með svona útúrsnúninga eins og þetta.“ Í hádegisfréttum RÚV var tekið fram að aldrei hafi samið um að einungis yrði spurt út í 100 ára afmæli flokksins í viðtalinu. Sigmundur Davíð félst lokst á að svara spurningunni ef hún yrði umorðuð.
Þá sagðist hann hafa fylgst vel með þingfundum og gangi mála á þeim, eins og aðrir þingmenn. Þegar fréttamaður RÚV benti á að aðrir þingmenn hefðu mætt í þingsal svaraði hann: „Voðaleg reiði er þetta í Ríkisútvarpinu og sérstaklega þér í minn garð.Ég hef fylgst með umræðum í þinginu og störfunum þar eins og aðrir þingmenn. Segjum þetta gott.“ Í kjölfarið sleit hann viðtalinu.