Alþingi skipaði fulltrúa í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins í dag, á þriggja mínútna löngum þingfundi. Skipan nefndarinnar var eina málið á dagskrá þingsins, en hinar tvær þingnefndirnar eru að störfum við að klára afgreiðslu fjárlaga og tengdra mála, frumvarps um kjararáð og breytingar á lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
Nefndin var skipuð til þess að hægt væri að taka fyrir veitingu ríkisborgararéttaar og veitingu heiðurslauna listamanna fyrir næsta ár.
Þessi tvö mál eru hefðbundin afgreiðslumál nefndarinnar undir lok árs, en nefndin leggur alltaf fram breytingatillögu við frumvarp til fjárlaga þar kemur fram hvaða listamenn eigi að hljóta heiðurslaun. Á þessu ári hafa 22 listamenn verið á listanum. Allsherjar- og menntamálanefnd leggur líka fram frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar til afgreiðslu fyrir hver jól.
Þórunn Egilsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins er formaður nefndarinnar og Nichole Leigh Mosty þingmaður Bjartrar framtíðar er 1. varaformaður. Guðjón S. Brjánsson þingmaður Samfylkingarinnar er 2. varaformaður og aðrir nefndarmenn eru Bryndís Haraldsdóttir (Sjálfstæðisflokki), Jón Gunnarsson (Sjálfstæðisflokki), Pawel Bartoszek (Viðreisn) , Einar Brynjólfsson (Píratar) , Svandís Svavarsdóttir (VG) og Vilhjálmur Árnason (Sjálfstæðisflokki).