Íslandsbanki mun greiða 27 milljarða í arðgreiðslur til ríkisins, en þetta var ákveðið á sérstökum hluthafafundi sem haldinn var í dag. Arðurinn verður greiddur út fyrir árslok.
Almennt viðmið Íslandsbanka er að greiða fjörutíu til fimmtíu prósent af hagnaði í arð. Í apríl voru greiddir tíu milljarðar króna í arð til hluthafa, sem samsvarar fimmtíu prósentum af hagnaði síðasta árs. Þá fékk stjórn bankans heimild til að kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu til að leggja mögulega fram tillögu um arð af hagnaði fyrri rekstrarára, líkt og gert var í dag.
Því mun bankinn greiða 37 milljarða króna í arð til ríkisins á þessu ári.
Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að mikil endurskipulagning hafi átt sér stað á eignahlut efnahagsreiknings bankans. Endurskipulagningu á lánasafni sé lokið, vanskilahlutfall fari lækkandi og hverfandi hluti endurskipulagðra lána fer aftur í vanskil. Staðan sé þannig að bankinn sé meðal 25% evrópskra banka sem hafi hvað lægst vanskilahlutföll.
Nú sé búið að stíga stórt skref í átt að eðlilegri fjármagnsskipan á skuldahlið efnahagsreiknings bankans. Bankinn hafi viðhaldið öflugum eiginfjár- og lausafjárhlutföllum til að takast á við möguleg áhrif vegna afléttingar hafta og áföllum í rekstrarumhverfi.
Eiginfjárhlutfall bankans verður 24% eftir arðgreiðsluna. Markmiðið hjá Íslandsbanka er að hafa hlutfallið yfir 23%, en eiginfjárkrafa Fjármálaeftirlitsins er 19%.