Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár hefur verið afgreitt úr fjárlaganefnd í sátt allra flokka. Frá þessu er greint á RÚV. Stefnt er að því að önnur umræða um málið hefjist í kvöld.
Bandormurinn svokallaði var einnig afgreiddur úr efnahags- og viðskiptanefnd í dag.
Breytingartillögur verða gerðar á fjárlagafrumvarpinu upp á tæpa þrettán milljarða króna með því að setja aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið, löggæslu, samgöngur og menntakerfið. Áfram er gert ráð fyrir afgangi af fjárlögum upp á 24 milljarða króna.
Á þingfundi sem hófst klukkan þrjú voru greidd atkvæði um frumvarp um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og málið er nú aftur komið til efnahags- og viðskiptanefndar.
Þá er allsherjar- og menntamálanefnd búin að leggja fram frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar.