Halldór Guðmundsson, sem hefur verið forstjóri Hörpu frá því í maí 2012, mun láta af störfum 1. mars næstkomandi. Hann mun á sama tíma taka við nýrri stöðu erlendis, en hann hefur verið ráðinn af orsku bókmenntamiðstöðinni Norla til að stjórna þátttöku Noregs sem verður heiðursgestur bókasýningarinnar í Frankfurt árið 2019. Halldór stýrði þátttöku Íslands á sömu sýningu árið 2011. Starf forstjóra Hörpu verður auglýst á nýju ári.
Í frétt á vef Hörpu er haft eftir Halldóri að mikil eftirsjá sé fyrir hann að Hörpu og starfsfólkinu sem þar vinni. Það sé hins vegar heiður að vera boðið að annast svo mikilvægt bókmenntakynningarverkefni fyrir annað land, og bókmenntir og bókaútgáfa séu það svið sem hann hefur helgað mestan hluta starfsævi sinnar.
Þungur en batnandi rekstur
Rekstur Hörpu, sem er í eigu íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar hefur verið erfiður frá því að hann hófst. Samanlagt nemur tap Hörpu, framlög ríkis og borgar vegna skulda hennar og rekstrarframlag ríkis og borgar sléttum átta milljörðum króna frá byrjun árs 2011 og til síðustu áramóta.
Reksturinn hefur þó batnað mikið síðustu ár ef horft er til aukningar á rekstrartekjum. Árið 2011 voru þær 482 milljónir króna en í fyrra voru rekstrartekjurnar 1.066 milljónir króna. Þær meira en tvöfölduðust því á fimm árum og hækkuðu ár frá ári.
Rekstrargjöld hafa að sama skapi vaxið. Árið 2012 voru þau um 1.229 milljónir króna. Í fyrra voru þau 1.349 milljónir króna.
All stefnir í að reksturinn batni enn frekar í ár, að gestir hússins á árinu 2016 verði hátt í tvær milljónir og viðburðir sem þar voru haldnir vel á annað þúsund.