Útlendingastofnun mun fram á mitt næsta ár geta vísað hluta hælisleitenda úr landi þrátt fyrir að þeir kæri úrskurði stofnunarinnar til kærunefndar útlendingamála, samkvæmt frumvarpi sem Þórunn Egilsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, hefur lagt fram á Alþingi.
Þetta á við þegar Útlendingastofnun hefur metið umsóknir fólks bersýnilega tilhæfulausar og það kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki. Viðkomandi munu áfram geta kært neitanir á hæli til kærunefndar útlendingamála, en gæti þá þurft að gera það að utan.
Alþingi samþykkti lög til bráðabirgða vegna þessa í október síðastliðnum, og átti ákvæðið að gilda út þetta ár, en tekið er á þessum málum í nýjum útlendingalögum sem eiga að taka gildi um áramótin. Nú er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt fram til 1. júlí og á móti frestist sambærileg ákvæði í útlendingalögunum, sem þykja óskýr. Þá gefist nægur tími til þess að lagfæra ákvæðið.
„Mikill fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hefur borist á árinu og er útlit fyrir að þær verði yfir 1.100 á árinu 2016. Meiri hluti umsókna er frá öruggum upprunaríkjum, aðallega Makedóníu og Albaníu. Aldrei fyrr hafa svo margir sótt um vernd hér á landi, en allt árið 2015 voru umsækjendur 354, árið 2014 voru þeir 175 og 172 árið 2013. Það sem af er ári hefur öllum slíkum umsóknum verið synjað. Þrátt fyrir það virðist ekkert lát á komum einstaklinga frá öruggum ríkjum, en í október og nóvember 2016 lögðu samanlagt 456 manns fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, þar af voru 79% frá öruggum ríkjum,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Þessi þróun hafi aukið álag á hæliskerfið mjög, og því hafi verið leitað ýmissa úrræða til þess að hraða afgreiðslu umsókna um vernd eins og hægt sé. Þetta ákvæði um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið þegar stofnunin telur umsóknina tilhæfulausa og viðkomandi komi frá öruggu ríki.