Meirihluti efnahags-og viðskiptanefndar hefur lagt til að tóbaksgjald verði hækkað með þeim hætti að tekjur ríkissjóðs vegna þess aukist um hálfan milljarð króna. Hækkunin eru umtalsvert meiri en gert var ráð fyrir í upphaflegu fjárlagafrumvarpi.
Fimm flokkar standa að meirihlutaálitinu: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Viðreisn, Björt framtíð og Píratar. Smári McCarthy, nefndarmaður Pírata, og Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, skrifuðu undir álitið með fyrirvara. Í áliti meirihlutans segir: „ Stjórnvöld hafa um langa hríð unnið að því markmiði að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því m.a. að hvetja til minni tóbaksneyslu almennings. Þá standa lýðheilsu-, jafnræðis- og samkeppnisrök til þess að misræmi gjalds miðað við hvert gramm tóbaks verði leiðrétt. Því er lagt til að tóbaksgjald á hvert gramm neftóbaks og annars tóbaks verði hækkað umtalsvert meira en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Gera má ráð fyrir að hækkunin hafi allt að 500 millj. kr. jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs á árinu 2017. Þá mun hún hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs sem nemur um 0,053 prósent.“
Farið eftir umsögn stjórnenda ÁTVR
Hækkunin á tóbaksgjaldinu er í samræmi umsögn sem stjórnendur ÁTVR skiluðu inn til nefndarinnar. Þar kom fram að ÁTVR vill að ríkið hækki tóbaksgjald á neftóbak og annað tóbak um 55,2-69 prósent. Tilgangurinn væri að samræma tóbaksgjald, en í núgildandi lögum sé það svo að neftóbak og annað tóbak beri talsvert lægra tóbaksgjald en sígarettur og vindlingar. Það hafi verið umtalsvert misræmi í gjaldtöku eftir tóbakstegundum allt frá því að tóbaksgjaldið var tekið upp árið 2001.
Aldrei hefur eins mikið selst af neftóbaki og í fyrra, þegar 36,1 tonn af tóbakinu voru seld. Nú verður það met slegið á nýjan leik, því gert er ráð fyrir að 40,1 tonn seljist á þessu ári. Neftóbakssalan er arðbær og ÁTVR fékk 748 milljónir í kassann án virðisaukaskatts í fyrra. Tekjurnar af sölunni hafa aukist verulega, en þær jukust um 30 prósent á tveimur árum til ársins 2016.
Í umsögn frá Ívari J. Arndal, forstjóra ÁTVR, kemur fram að kannanir sýni að það tóbak sem selt er og markaðssett sem neftóbak á Íslandi er í yfirgnæfandi meirihluta tilvika tekið í munn og notendur þess séu að stórum hluta ungt fólk og nýir tóbaksneytendur. „Rétt er að benda á að ÁTVR treystir sér ekki lengur til þess að greina á milli munntóbaks og neftóbaks og hefur leitað leiðbeininga hjá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig skuli greina á milli neftóbaks og munntóbaks. Önnur varan er lögleg á Íslandi, hin ólögleg.“