Fjarskipti hf., móðurfélag Vodafone á Íslandi, hefur náð samkomulagi um að kaupa ljósvaka- og fjarskiptastarfsemi 365 miðla á samtals 6,8 milljarða króna. Kaupverðið verður greitt með hlutum í Fjarskiptum að andvirði 1,7 milljarða króna, 500 milljónum króna í reiðufé og yfirtöku á 4,6 milljarða króna vaxtaberandi skuldum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Kaupverðið er umtalsvert lægra en tilkynnt var um að það ætti að vera þegar samkomulag um einkaviðræður var undirritað í lok ágúst síðastliðins. Þá var sagt að greiða ætti 3,4 milljarða króna, 1,7 milljarða króna í reiðufé og sömu upphæð í hlutum í Vodafone, auk þess sem tekið yrði yfir 4,6 milljarða króna af vaxtaberandi skuldum.
Í tilkynningunni kemur fram að samkomulag um lægra kaupverð greiði fyrir kaupsamningsgerð og enn sé stefnt að því að ljúka kaupunum á fyrstu vikum nýs árs. „Áfram er því ráðgert að ganga frá kaupunum um mitt ár 2017, að fengnu samþykki viðkomandi eftirlits- og hagsmunaaðila. Nánar verður gert grein fyrir forsendum viðskiptanna þegar kaupsamningur liggur fyrir.“
Ekki komið á hreint hvort fréttastofa 365 fari með
Það sem Vodafone vill kaupa er sjónvarps- og útvarpsrekstur 365 miðla ásamt fjarskiptahluta fyrirtækisins. Það þýðir að sjónvarpsstöðvar á borð við Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásina eru undir ásamt útvarpsstöðvum á borð við Bylgjuna, FM957 og X-ið. Eignir sem eru undanskildar eru Fréttablaðið og vefurinn Vísir.is.
Í dag eru fréttastofa 365 miðla, sem framleiðir efni í alla miðla fyrirtækis, ein eining. Þ.e. hún vinnur efni inn í dagblaðið Fréttablaðið, á vefinn Vísi.is, í sjónvarpsfréttir Stöðvar 2 og á útvarpsstöðvar fyrirtækisins. Hún tilheyrir því bæði ljósvakahlutanum, sem Vodafone vill kaupa, og prent- og vefhlutanum, sem skilin verður eftir í 365 miðlum.
Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone liggur enn ekki fyrir hvort eða hvaða hluti fréttastofu 365 fylgi með yfir til Vodafone í kaupunum. Það verði útfært nú þegar fyrir liggur að samkomulag hafi náðst um kaupverð.
Vodafone mun styrkjast við kaupin á 365
Íslenskum farsímamarkaði er bróðurlega skipt upp í þrennt. Nova er með mesta markaðshlutdeild (34,4 prósent) og Síminn með næsta mesta (33,7 prósent). Þriðji risinn á fjarskiptamarkaði er síðan Vodafone. Því hefur tekist að halda vel á áskriftarfjölda sínum á farsímamarkaði og raunar bætt við sig rúmlega sex þúsund viðskiptavinum frá miðju ári í fyrra. Alls nemur markaðshlutdeild fyrirtækisins 27,5 prósentum.
365 sameinaðist Tali í desember 2014 og tók þar með yfir farsímaviðskipti síðarnefnda fyrirtækisins. Alls eru viðskiptavinir 365 í farsímaþjónustu nú um 16.335 talsins. Það er umtalsvert færri viðskiptavinir en Tal var með í árslok 2012, þegar þeir voru um 20 þúsund.
Verði af kaupum Vodafone á 365 miðlum mun Vodafone auka veltu sína um hátt í tíu milljarða króna og vera mun betur í stakk búið til að keppa við sinn aðalkeppinaut, Símann sem þegar rekur víðfeðma sjónvarpsþjónustu, á sjónvarpsmarkaði. Samanlagt verða viðskiptavinir hins sameinaða fyrirtæki á farsímamarkaði 136.023 og sameiginleg markaðshlutdeild 31,2 prósent. Vodafone verður því ekki langt frá Símanum, sem er með 33,7 prósent markaðshlutdeild á farsímamarkaði, og Nova, sem er með 34,4 prósent hlutdeild.