Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Björt framtíð og Viðreisn mynduðu áfram meirihluta í atkvæðagreiðslu um frumvarp um breytingar á lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins í gærkvöldi. Þingmenn þessara fjögurra flokka greiddu atkvæði með frumvarpinu, 38 þingmenn samtals.
Málið varðar jöfnun á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og almenna vinnumarkaðarins, og byggir á samkomulagi sem gert var fyrr á árinu. Aðilar að samkomulaginu, BSRB, BHM og KÍ, hafa mótmælt afgreiðslu málsins því samtökin segja það ekki í samræmi við samkomulagið.
Það er mikilvægt að laga lífeyrissjóðskerfin okkar og jafna þau milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna,“ sagði Björt Ólafsdóttir þingmaður Bjartrar framtíðar, við afgreiðslu málsins í gærkvöldi. Hún var eini þingmaðurinn í þessum meirihluta sem tók til máls og sagði að ef ekkert yrði aðgert myndu iðgjöld hækka, sem þýddi tekjuskerðingu fyrir fólkið í landinu. „Ég vil bara að við skoðum þetta í heildarsamhengi,“ sagði hún, og sagði málið hafa verið til umræðu frá því í haust.
Þingmenn Pírata og Vinstri grænna greiddu ýmist atkvæði á móti eða sátu hjá við afgreiðslu frumvarpsins, en þingmenn Samfylkingarinnar sátu allir hjá, vegna þess að vinnubrögðin við málið voru flokknum vonbrigði, sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, við afgreiðslu málsins í gærkvöldi.
Fimm þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn málinu en fjórir sátu hjá. Einn þingmaður Pírata, Viktor Orri Valgarðsson, sat hjá en allir hinir greiddu atkvæði gegn málinu. „Málið er ekki tilbúið,“ sagði Birgitta Jónsdóttir Pírati. Smári McCarthy samflokksmaður hennar sagði ekki nægilega vel tekið tillit til þeirra sem munu verða fyrir skerðingu með lagabreytingunum, og sagði einnig að vinnubrögðin væru ekki til fyrirmyndar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði málið vera grundvallarkerfisbreytingu, og mjög slæmt væri að gera slíkar breytingar með þeim hraða sem hefði einkennt afgreiðsluna í þinginu. Það sé umhugsunarefni hversu miklar deilur hafi skapast um málið, og hún telji að þingið geti gert betur.