Persónuafsláttur einstaklinga mun hækka um 11.838 krónur á næsta ári í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs. Persónuafslátturinn verður því 52.907 krónur á mánuði og hækkar um 987 krónur. Skattleysismörk, að meðtöldum afslættinum, í 149.192 krónur á mánuði. Þetta kemur fram í frétt frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Haustið 2015 samþykkti Alþingi breytingar á skattkerfinu sem í fólst að skattþrepum einstaklinga yrði fækkað úr þremur í tvö í tveimur áföngum. Sá fyrri kom til framkvæmda í upphafi þessa árs en sá síðari kemur til framkvæmda í janúar. Þá mun neðsta skattþrepið lækka úr 22,68 prósent í 22,5 prósent, miðþrepið fellur út og efsta þrepið, eða efra þrepið frá áramótum, verður óbreytt 31,8 prósent.
Í frétt ráðuneytisins segir: „Fækkun þrepa úr þremur í tvö leiðir til þess að tekjuviðmiðunarmörk milli skattþrepa verða aðeins ein á árinu 2017. Þau uppreiknast samkvæmt lögum í upphafi ársins í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu á undangengnu tólf mánaða tímabili (nóv. til nóv.) Launavísitala nóvembermánaðar liggur nú fyrir og er hækkun hennar á tólf mánaða tímabili 9,7 prósent.“