Magnús Geir Þórðarsson útvarpsstjóri hefur svarað bréfi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Þar fór Sigmundur Davíð fram á afsökunarbeiðni frá RÚV vegna þess hvernig komið hafi verið fram við hann og konu hans.
Magnús Geir vísar þessu á bug í bréfi sínu, sem birtist á vef RÚV. Hann segist margsinnis hafa farið yfir umfjöllun RÚV um Panamaskjölin og Sigmund Davíð með Rakel Þorbergsdóttur fréttastjóra og ætið blasi það sama við: „fréttagildi málsins er ótvírætt og það átti erindi við almenning í landinu. Þær upplýsingar sem fram komu í umræddum þætti standa og hafa ekki verið hraktar. Með umræddum fréttaflutningi var Ríkisútvarpið að sinna sínu hlutverki og skyldum. Því er ekki tilefni til afsökunarbeiðni Ríkisútvarpsins vegna málsins.“
Fjölmiðlar eigi að vera fulltrúar almennings og þeim beri að spyrja kjörna fulltrúa út í málefni er hann varða. Það sama eigi við um Sigmund Davíð og aðra kjörna fulltrúa. „Sigmundur Davíð hefur ítrekað fengið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og fjallað hefur verið um þau í miðlum RÚV.“
Magnús Geir segir að störf Ríkisútvarpsins séu opinberar og almenningur geti lagt sjálfstætt mat á þau en stofnunin njóti yfirburðatrausts meðal almennings samkvæmt mælingum.
„Ef almenningur er ósáttur við tiltekin atriði í fréttaflutningi, þá tekur RÚV fúslega við athugsemdum og svarar með formlegum hætti. Ef viðkomandi er ósáttur við þá afgreiðslu sem hann fær hjá stofnuninni, þá er hægt að beina málinu til sjálfstæðrar siðanefndar sem leggur sjálfstætt mat á framgöngu starfsmanna RÚV en að auki má benda á að allir geta skotið málum til Blaðamannafélags Íslands. Ef þingmaðurinn telur á sig hallað þá hvet ég hann til að beina málum í þennan formlega farveg sem er til staðar fyrir hann eins og aðra.“