Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands boðaði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins á Bessastaði í dag og fól honum umboð til að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Bjarni verður forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn takist flokkunum að mynda hana.
Í yfirlýsingu frá forsetanum segir að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, hafi gengið á fund hans fyrr í dag og lýst yfir vilja til að ganga til formlegra viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn, undir forystu hans. Í kjölfarið hafi hann boðað Bjarna á sinn fund.
Bjarni sagði að fundi loknum að málefnalega hafi þokast umtalsvert í viðræðum flokkanna, þótt að ýmislegt standi enn út af borðinu.Aðspurður sagði Bjarni að bæði Evrópumál og sjávarútvegsmál, sem voru stór hindrun í fyrri stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna þriggja, hafi tekið tekið mikinn tíma í viðræðunum nú en telur að ágætis sátt hafi náðst um þau. Þá hafi samtöl um stjórnarskrármál og innviðauppbygging líka tekið tíma. Allt sé þó komið miklu lengra en var í fyrstu lotu viðræðna milli flokkanna þriggja. Það sé ótvírætt.