Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir að í síðustu einkavæðingu bankakerfisins upp úr aldamótunum hafi íslenskum bönkum verið breytt í spilavíti, í þeim spilað djarft og Ísland var lagt að veði. Síðasta spilið tapaðist og þjóðin sat eftir í rústunum. Sú saga megi ekki endurtaka sig nú þegar ríkið hugar á ný að sölu á eignarhlutum sínum í bönkum. Þetta kemur fram í áramótagrein Benedikts sem birt var í Morgunblaðinu í dag. Þar skrifa allir leiðtogar stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á þingi að venju grein.
Tilkynnt var um það í gær að formlegar viðræður séu nú hafnar milli Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks um myndun nýrrar ríkisstjórnar og að málefnasamningur sé langt komin. Fyrir liggur að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verði forsætisráðherra í slíkri stjórn en heimildir Kjarnans herma að allar líkur séu á því að Benedikt verði fjármála- og efnahagsráðherra. Eignarhlutir ríkisins í bönkum, og sala á þeim, myndi þá heyra undir hans ráðuneyti. Íslenska ríkið á nær allt hlutafé í Landsbankanum og allt hlutafé í Íslandsbanka. Heimild er í fjárlögum til að selja stóran hlut í Landsbankanum og allan hlutinn í Íslandsbanka.
Í grein Benedikts segir að versta ákvörðun stjórnvalda við einkavæðingu bankanna í upphafi 21. aldarinnar hafi verið sú að hverfa frá stefnu um dreift eignarhald og handvelja þess í stað „kjölfestufjárfesta“ sem litu á bankana sem framlengingu á eigin buddu. „Bankar sem áður höfðu verið þunglamalegar þjónustustofnanir skiptu út flestum „gamalmennum“ yfir fertugt og inn stigu djarfhuga menn sem vildu „láta peningana vinna“. Bankarnir hættu að vera þjónar atvinnulífsins og aðhaldssamir ráðgjafar. Þess í stað urðu þeir beinir þátttakendur í fyrirtækjum og atvinnulífið skiptist í fylkingar sem tengdust bönkunum og eigendum þeirra. Bankarnir voru eins og spilavíti, spilað var djarft og Ísland sett að veði. Síðasta spilið tapaðist og þjóðin sat eftir í rústunum. Nú þegar ríkið hugar að sölu á eignarhlut sínum í bönkunum verður að hafa þessa sögu í huga, því að hún má ekki endurtaka sig.“
Tilefni til að tala um hugmyndafræði
Í greinum hinna tveggja leiðtogar flokkanna sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum er einnig fjallað stuttlega um þær viðræður. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir að niðurstöður kosninganna í haust hafi verið óljósar og erfiðar úrlausnar. Ríkisstjórnin hafi misst meirihluta sinn en stjórnarandstaðan fékk ekki heldur meirihluta. Nýr flokkur hafi komist á þing og bæst í hóp tveggja annarra nýrra flokka sem hafa bæst í íslensku stjórnmálaflóruna frá hruni. „Hvorki hægri armurinn né sá vinstri fengu skýran stuðning heldur fengu flokkar sem skilgreina sig sem miðjuflokka, eða hvorki hægri né vinstri, góða kosningu. Þetta er mikil uppstokkun á íslensku stjórnmálalandslagi og verður athyglisvert að sjá hvert framhaldið verður. Breytt staða kallar á að unnið sé úr henni og lausnir fundnar. Það tókst að samþykkja þverpólitísk fjárlög í desember þegar ekki var fyrir hendi tryggur meirihluti eins og venjulega. Það að ekki sé hægt að halla sér að því sem hefur virkað hingað til kallar á eitthvað nýtt. Þótt staðan sé snúin felast líka í henni óþekkt tækifæri. Það er á ábyrgð okkar sem störfum í stjórnmálum að finna leiðir til að vinna saman landi og þjóð til gagns.“
Bjarni Benediktsson segir einnig í sinni grein að þrátt fyrir hagfelldar aðstæður í efnahagsmálum Íslendinga hafi niðurstöður kosninganna reynst öllum flokkum flókið úrlausnarefni. Leiðtogar stjórnmálaflokkanna ásamt nýkjörnum forseta hafi því þurft að takast á við stjórnarmyndun sem hefur tekið lengri tíma en þekkst hefur í áratugi. „Þótt æskilegt sé að slík staða komi ekki upp hefur hún þó gefið flokkunum tilefni til að ræða saman um hugmyndafræði og málefni á öðrum nótum en venjulega tíðkast í íslenskum stjórnmálum. Ef til vill hafa þau samtöl leitt til þess að þinginu auðnaðist að ljúka mikilvægum málum fyrir jól, þar á meðal fjárlögum og brýnum breytingum á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, sem verða mikilvægt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að því að mynda hér einn vinnumarkað.“