Innlytjendamál, misskipting auðs og jafn réttur allra til grunnmenntunar og lækninga óháð efnahag voru fyrirferðamikil í fyrsta áramótaávarpi Guðna Th. Jóhannessonar, sjötta forseta Íslands, sem flutt var á RÚV í dag.
Guðni Th. hóf ávarp sitt á því að fjalla stuttlega um þann tíma sem hann hefur setið í embættinu, en hann tók við því 1. ágúst síðastliðinn. Hann hafi upplifað að Íslendingar beri mikla virðingu fyrir embætti forseta Íslands en um leið megi hann ekki telja sig yfir aðra hafinn. Öllum sé hollt að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og sagði Guðni Th. að Helgi Björnsson hafi orðað það þannig í nýlegu dægurlagi: „Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt. Vertu þú sjálfur, eins og þú ert. Láttu það flakka, dansaðu í vindinum. Faðmaðu heiminn, elskaðu.“
Ísland ekki lengur einsleitt samfélag
Guðni Th. sagði að samfélag okkar hafi lengi verið einsleitt. Ekki væri langt síðan að Íslendingar voru nær allir í þjóðkirkjunni og öðrum kristnum trúfélögum, hvítir á hörund, áttu íslensku að móðurmáli og báru auðsýnilega íslenskt nafn. „Þetta er liðin tíð sem kemur ekki á ný. Framfarir um okkar daga byggjast á fjölbreytni; flæði hugmynda og fólks um víða veröld. Um leið verðum við þó ætíð að tryggja og vernda grunngildi okkar; réttarríki og velferðarsamfélag þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, jafnrétti kynjanna, trúfrelsi og ástfrelsi, málfrelsi og menningarfrelsi. Sömuleiðis væri heillaráð að kynna fyrir þeim sem hér vilja setjast að þau þjóðareinkenni sem hafa hjálpað okkur að komast af á hinu harðbýla landi okkar: þrautseigju og þrjósku, samstöðu þegar þörf krefur en sundurlyndi þess á milli, og þá blöndu af agaleysi og æðruleysi sem kemur okkur í vandræði en út úr þeim aftur – og má draga saman í orðtakinu góða: „Þetta reddast.““
Mannkyninu mun aldrei farnast vel þegar fáir eiga svona mikið
Forsetinn sagði að hann hyggi að flestir Íslendingar séu einhuga um að meginstoðir okkar samfélags séu jafn réttur allra til grunnmenntunar og lækninga, óháð efnahag. „Sátt virðist líka ríkja um nauðsyn þess að heilbrigðis- og menntakerfi landsins standi undir nafni. Sé þannig að verki staðið er minni hætta en ella á því að fólk festist í fátækt og forlagafjötrum. Um leið eiga allir að geta spreytt sig, skarað fram úr, efnast, gert vel við sig og sína en goldið sanngjarnan skerf til samfélagsþarfa. Höfum þó í huga að aukin misskipting veldur sundrungu og spennu. Mannkyni mun aldrei farnast vel ef eitt prósent jarðarbúa á eins mikinn auð og hin 99 prósentin til samans. Ógn stafar af fjármagnsskipulagi sem örfáir stýra og tekur ekki mið af hagsmunum fjöldans. Þannig hafa Barack Obama Bandaríkjaforseti og vísindamaðurinn Stephen Hawking nýlega komist að orði og undir þessi sjónarmið má taka.“
Guðni Th. sagði að styrkur ríkis og þjóðfélags væri ekki metinn eftir hagvexti, þjóðarframleiðslu, vígbúnaði eða mannfjölda. Þótt að við Íslendingar fögnum afrekum samlanda okkar á sviði menningar, vísinda eða íþrótta séu þau ekki endilega til vitnis um kosti samfélagsins. „Raunverulegur styrkur þess felst í því hversu vel er hlúð að sjúkum og öðrum sem þurfa á aðstoð að halda, fólki sem býr við fötlun eða þroskaskerðingu. Styrk samfélags má líka meta eftir því hvernig börnum er sinnt, hvernig búið er að öldruðum á ævikvöldi. Þetta eru allt saman mælikvarðar á lífsgæði, markmið sem skipta mestu í bráð og lengd. Í samanburði við mörg önnur ríki og okkar eigin fortíð megum við vel við una. En við getum ætíð gert enn betur.“
Ný heimasíða opnuð
Í dag var ný heimasíða embættis forseta Íslands sett í loftið. Á fjáraukalögum 2016 kom fram að heimasíða forsetaembættisins hefði verið óbreytt í sextán ár og stefnt yrði að því að efna til útboðs um nýja slíka fari fram í haust. Áætlaður kostnaður var fimm milljónir króna. Guðni Th. sagði að það væri gaman að geta gert breytingar á heimasíðunni, sem hafi verið endurhönnuð frá grunni. „Í upphafi var sú síða markverð nýjung, öflug fréttaveita sem varð öðrum í stjórnkerfinu kannski fyrirmynd að einhverju marki. Slóðin er sú sama og fyrr, forseti.is en nú er unnt að tengja upplýsingar þar við samfélagsmiðla og færa fregnir með nútímalegra yfirbragði en áður. Síðar á þessu ári mun landsmönnum jafnframt gefast kostur á að heimsækja Bessastaði án þess að hafa beinlínis fengið um það boð. Á síðunni nýju mun fólk geta skráð 2 sig í kynnisferð um þjóðhöfðingjasetrið til að fræðast um þennan merka stað í sögu okkar og famtíð.“
Hægt er að lesa áramótaávarp forseta Íslands í heild sinni hér.