Það væri ekki í hag Sjálfstæðisflokksins og ekki í anda stefnu flokksins ef hann myndi samþykkja að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið. Þetta segir Gunnlaugur Snær Ólafsson, formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins við mbl.is. Afstaða flokksmanna og kjósenda hans „hefur alfarið verið á þá leið að þeir hafa engan áhuga á þessu.“
Í morgun var sagt frá því í Fréttablaðinu að búið væri að ná samkomulagi um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Slík þjóðaratkvæðagreiðsla myndi fara fram á kjörtímabilinu. Greint hefur verið frá því að til standi að láta þingið taka ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðsluna og að það verði sett í stjórnarsáttmála að væntanlegir ríkisstjórnarflokkar gengju óbundnir til þeirrar ákvörðunar.
Bæði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, hafa sagt í dag að ekki sé allt rétt sem komið hafi fram í fréttum. „Mér sýnist að blöðin hafi verið duglegri um helgina að fá fréttir heldur en ég,“ sagði Óttarr á RÚV í morgun aðspurður hvort samkomulag hefði náðst um að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Benedikt sagði við mbl.is í morgun að það væri „margt nýtt sem maður lærir með því að lesa blöðin.“
Gunnlaugur Snær segir að ef þessar fréttir skyldu vera réttar hafi það í för með sér vandamál, ekki bara fyrir Sjálfstæðisflokkinn heldur líka mögulegt ríkisstjórnarsamstarf. Það hafi verið ályktað skýrt um málið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að hann myndi eingöngu krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu ef það ætti að sækja um aðild að nýju. „Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að hafa frumkvæði að því að sækja um að nýju því hann er andsnúinn því að ganga í Evrópusambandið. Þetta er ákveðin mótsögn ef slík atkvæðagreiðsla ætti sér stað. Segjum sem svo að það yrði kosið snemma á kjörtímabilinu eða á því miðju; ætlar forysta Sjálfstæðisflokksins út í kosningabaráttu gegn því að þetta verði samþykkt á meðan forystumenn annarra ríkisstjórnarflokka væru hugsanlega að berjast með ályktuninni?“