Fjórtán af þeim 32 þingmönnum sem settust nýir á þing eftir kosningarnar í lok október eiga enn eftir að birta skrá yfir hagsmuni sína á vef Alþingis. Þing kom saman eftir kosningarnar þann 6. desember síðastliðinn. Alþingismenn eiga að gera opinberlega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum og trúnaðarstörfum utan þings innan mánaðar frá því að nýkjörið þing kemur saman. Frestur þingmannanna fjórtán til að gera það rennur því út á föstudag, 6. janúar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Tólf hafa hins vegar skilað inn hagsmunaskráningu og sex birt yfirlýsingu þess efnis að þeir eigi enga fjárhagslega hagsmuni sem reglur Alþingis um hagsmunaskráningu þingmanna nái yfir.
Þingmennirnir sem eiga eftir að birta skráningu um hagsmuni sína koma úr öllum flokkum nema Framsóknarflokknum. Einungis einn af átta þingmönnum Framsóknarflokksins er nýr á þingi, Lilja Alfreðsdóttir. Hún hefur setið sem utanríkisráðherra frá því í apríl.
Hagsmunaskráning þingmanna var mikið í brennidepli í fyrra þegar Panamaskjölin opinberuðu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, hefði átt hlut í aflandsfélaginu Wintris sem skráð var til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum, geymdi að minnsta kosti á annan milljarð króna af eignum og var kröfuhafi í bú föllnu íslensku bankanna. Þar var einnig greint frá því að bæði Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal, formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefðu átt hlut í aflandsfélögum á árum áður, á meðan að þau voru þingmenn. Engin þessara félaga voru skráð í hagsmunaskráningu þingsins.