Ekki þykir ástæða til þess að halda áfram rannsóknum á hluta Drekasvæðisins, og hafa sérleyfishafar þar því gefið eftir sérleyfi sitt til rannsókna á svæðinu. Orkustofnun hefur samþykkt að leyfið sé gefið eftir.
Um er að ræða minna sérleyfið til rannsókna á olíu og gasi á Drekasvæðinu, sem er í íslenskri lögsögu. Það var kanadíska fyrirtækið Ithaca Petroleum ehf. sem fékk sérleyfið ásamt samstarfsaðilunum Kolvetni ehf og Petoro Iceland ehf. Leyfið var gefið út fyrir fjórum árum síðan. Ákvörðun um framhald leyfisins varð að taka nú í janúar samkvæmt samningum.
Í tilkynningu frá Orkustofnun kemur fram að safnað hafi verið 1.000 kílómetrum af endurkastsgögnum á svæðinu síðastliðið sumar, en túlkun gagnanna hafi leitt í ljós að ekki væri ástæða til að halda áfram rannsóknum. „Jarðfræðirannsóknir byggðar á nýju endurkastsgögnunum benda til þess að líkur á að finna olíu og/eða gas á afmörkuðu svæði sérleyfissvæðis sem rannsakað var, gefi ekki tilefni til að takast á við næsta áfanga rannsóknaráætlunar sérleyfisins. Niðurstöður túlkunar Ithaca Petroleum á gögnunum leiðir líkur að því að á svæði sem leyfishafarnir töldu fýsilegt, væri móðurberg kolvetna á dýpri jarðlögum en fyrstu vísbendingar gáfu til kynna,“ segir í tilkynningu Orkustofnunar.
Orkustofnun segir að jarðfræðiaðstæður á þessu leyfissvæði séu gjörólíkar aðstæðunum á hinu leyfissvæðinu sem enn er rannsakað. Það er stærra svæði og er CNOOC International rekstraraðilinn þar. Rannsóknir á því svæði halda að minnsta kosti áfram í ár í viðbót.
Orkustofnun veitti þrjú sérleyfi til að rannsaka og vinna kolvetni á Drekasvæðinu árin 2013 og 2014. Nú hefur tveimur af þremur sérleyfum verið skilað inn til Orkustofnunar.