Fullyrt er í Morgunblaðinu í dag að hluti þingmanna Sjálfstæðisflokks efist um ágæti þess að mynda ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð. Þeir meti það hins vegar sem svo að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hafi óskorað umboð til þess að mynda slíka ríkisstjórn.
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður flokkanna þriggja hafa staðið yfir alla þessa viku eftir að Bjarni fékk stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands á föstudag. Þrátt fyrir að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hafi sagt í gærmorgun að hún vildi mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum, og að Vinstri græn hafi gengist við því að samtal um samstarfsfleti hefði farið fram við Framsókn, þá á Sjálfstæðisflokkurinn ekki í neinum slíkum viðræðum við flokkanna tvo.
Bjarni hefur þegar upplýst að ytri rammi samstarfs ríkisstjórnar með Viðreisn og Bjartri framtíð liggi fyrir. Búist er við því að verkaskipting og ráðherrastólar verði ræddir á fundi flokkanna í dag. Þegar hefur verið ákveðið að Bjarni verði forsætisráðherra og allar líkur eru taldar á því að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, verði fjármála- og efnahagsráðherra. Heimildir Kjarnans herma að sá möguleiki að breyta verkaskiptingu ráðuneyta, og jafnvel fjölga þeim, hafi verið ræddur. Er þá helst horft til þess að koma ferðaþjónustu fyrir í sérstöku ráðuneyti, mögulega með fleiri málaflokkum.