Gunnar Bragi Sveinsson, starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að setja á laggirnar starfshóp sem á að endurskoða lög og reglur um kaup erlendra aðila á bújörðum hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
„Nokkur umræða hefur verið í þjóðfélaginu um árabil varðandi kaup erlendra aðila á bújörðum hér á landi. Dæmi eru um það að sami aðili hafi keypt margar jarðir á stóru svæði án þess að þar sé fyrirhuguð búseta eða að ræktanlegt land sé nýtt,“ segir í tilkynningunni, og að vegna þessarar umræðu hafi Gunnar Bragi ákveðið að skipa þriggja manna starfshóp til að leggja mat á það hvaða takmarkanir komi helst til greina til að „viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins.“
Hópurinn á einnig að skoða takmarkanir sem er að finna í löggjöf nágrannalanda Íslands. Í dönsku jarðalögunum sé meðal annars eignarhald á landbúnaðarlandi takmarkað og skilyrði sett fyrir kaupum erlendra ríkisborgara.
Einn fulltrúi í þessum hóp verður tilnefndur af innanríkisráðherra, einn frá Bændasamtökum Íslands og formaðurinn verður skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hópurinn er sagður eiga að skila tillögum sínum eigi síðar en í júní.
Greint var frá því fyrir jól að breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe hefði keypt meirihlutann í jörðinni Grímsstöðum á fjöllum.