Skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum var tilbúin í september, og henni skilað til ráðuneytisins þá. Samkvæmt svörum sem Kjarninn fékk við upphaflegri fyrirspurn sinni um málið, í byrjun nóvember, var skýrslan kynnt í ráðuneytinu í byrjun október.
Kjarninn greindi frá því á föstudaginn að fram kemur í skýrslunni að henni hafi verið skilað þegar „nokkuð var liðið á september.“ Á forsíðu skýrslunnar kemur einnig fram tímasetningin september 2016, en það er með hvítu letri svo tímasetningin er ógreinileg nema tekið sé utan um textann, líkt og bent er á í þessum pistli á Stundinni.
Þegar skýrslan hafði verið birt á föstudaginn sendi Kjarninn tvær fyrirspurnir til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Annarri var beint til Bjarna Benediktssonar, starfandi fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem óskað var eftir upplýsingum um og skýringum á því hvers vegna birting á skýrslu starfshópsins tafðist fram til þess dags. Óskað var eftir upplýsingum um það hvað hafi komið í veg fyrir að hún væri birt þegar hún hafði verið kynnt í fjármálaráðuneytinu í byrjun október. Ekki hefur fengist svar við þeirri fyrirspurn.
Hin fyrirspurnin snérist um það hvort skýrslan sem birt var á föstudaginn væri óbreytt frá því sem starfshópurinn skilaði, eða hvort breytingar hafi verið gerðar á henni, hvort sem væri af hálfu hópsins eða af hálfu ráðuneytisins.
Í svari frá upplýsingafulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir orðrétt: „Starfshópurinn breytti engu í skýrslunni eftir að henni var skilað og ráðuneytið hlutaðist ekki til um neinar breytingar á skýrslunni.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði aftur á móti í viðtali við RÚV í gær: „Þetta var skýrsla sem var tekin saman eins og ég sagði, algjörlega að mínu frumkvæði, hún kemur inn í ráðuneytið einhvern tímann í október… svona í sinni endanlegu mynd.“ Hann sagði líka að hann hafi fengið skýrsluna í hendurnar eftir þingslit, en þingi var slitið þann 13. október síðastliðinn.
Bjarni skipaði starfshópinn í kjölfar uppljóstrana Panamaskjalanna í apríl á síðasta ári. Upphaflega átti hann að skila skýrslu í lok júní, en það reyndist ekki mögulegt. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í svo september og kynnti hana í fjármálaráðuneytinu í byrjun október síðastliðins, en hún var ekki kynnt fyrir Alþingi fyrir kosningar.
Kjarninn spurðist ítrekað fyrir um málið, og í nóvember var greint frá því að skýrslan kæmi fyrir nýtt Alþingi þegar það kæmi saman. Af því varð ekki, og Kjarninn sagði frá því fyrr í þessari viku að ekkert bólaði á skýrslunni þrátt fyrir að þing hafi komið saman í byrjun desember. Á föstudag var skýrslan svo gerð opinber, og hún hefur verið send til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur óskað eftir því að nefndin komi saman í næstu viku til að ræða skýrsluna.