Höskuldur Þórhallsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, íhugar að bjóða sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). Frá þessu er greint á mbl.is. Þar segir Höskuldur að félög utan af landi hafi sett sig í samband við hann um að bjóða sig fram og að hann geti staðfest að hann sé að skoða framboð. Höskuldur lék á sínum tíma með bæði KA og Fram og þjálfaði auk þess Gróttu um skeið.
Geir Þorsteinsson, sitjandi formaður KSÍ, tilkynnti í síðustu viku að hann ætli ekki að gefa kost á sér til endurkjörs á næsta landsþingi Knattspyrnusambands Íslands sem fram fer í Vestmannaeyjum 11. febrúar næstkomandi. Geir hefur verið formaður síðan 2007. Guðni Bergsson, lögmaður og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, og Björn Einarsson, formaður Víkings, hafa báðir tilkynnt um framboð.
Höskuldur sóttist eftir að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu kosningar. Þar beið hann lægri hlut fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Þórunni Egilsdóttur og ákvað í kjölfarið að taka ekki sæti á lista. Höskuldur hafði einnig sóst eftir því að leiða kjördæmið fyrir kosningarnar 2013 en án árangurs. Hann tapaði einnig formannsslag í Framsóknarflokknum árið 2009 gegn Sigmundi Davíð, þrátt fyrir að hafa upphaflega verið lýstur sigurvegari.