Í drögum að stjórnarsáttmála ríkissstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar kemur fram að hún muni ekki leggja fram tillögu á Alþingi varðandi umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili. Þar segir hins vegar að þingmenn stjórnarmeirihlutans geti stutt þingmál varðandi umsóknarferli að Evrópusambandinu komi slíkt mál fram undir lok kjörtímabilsins. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Þetta er í samræmi við það sem Kjarninn greindi frá í síðustu viku, að Evrópumál verði afgreidd með þeim hætti að þingsályktunartillaga verður lögð fram á kjörtímabilinu um hvort ráðast eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna Íslands við sambandið. Ríkisstjórnin mun ekki bera ábyrgð á þeirri tillögu og Sjálfstæðisflokkurinn, sem er andvígur aðild, mun geta barist gegn þeirri niðurstöðu. Það mun Framsóknarflokkurinn einnig gera. Ljóst er að þingmenn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Pírata munu kjósa með tillögunni. Það mun því ráðast af afstöðu Vinstri grænna hvort slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram eður ei.
Kjarninn greindi einnig frá því í síðustu viku að stóra málamiðlunin sem hefur verið gerð í viðræðum er í sjávarútvegsmálum. Heimildir Kjarnans herma að Viðreisn hafi gefið eftir kröfu um uppboð á aflaheimildum til þess að ná saman við Sjálfstæðisflokkinn. Þess í stað verður samþykkt að búa til ferli sem eigi að miða að breytingum innan ákveðins tímaramma, en kerfisbreyting á sjávarútvegskerfinu sjálfu verður ekki hluti af stjórnarsáttmála.