Bjarni Benediktsson, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, Sigríður Á. Andersen, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór og Kristján Þór Júlíusson verða ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni sem mynduð var í dag. Athygli vekur að Ólöf Nordal, varaformaður flokksins og innanríkisráðherra, tekur ekki ráðherrasæti en hún hefur glímt við erfið veikindi.
Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Guðlaugur Þór Þórðarson verður utanríksiráðherra, Sigríður Andersen verður dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson verður ráðherra samgöngumála, byggðamála, sveitastjórnarmála og Kristján Þór Júlíusson verður menntamálaráðherra. Þá verður Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis. Því verða ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sex talsins en hinir tveir flokkarnir í ríkisstjórninni, Viðreisn og Björt framtíð, fá saman fimm ráðherra.
Benedikt Jóhannesson verður fjármálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Óttarr Proppé heibrigðisráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra.