Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segist ekki halda að Bjarni Benediktsson, sitjandi fjármála- og efnahagsráðherra, hafi sýnt af sér ásetning um feluleik þegar hann ákvað að birta ekki skýrslu um aflandseignir Íslendinga fyrr en þremur mánuðum eftir að hún var kynnt honum og tæpum fjórum mánuðum eftir að henni var skilað inn til ráðuneytis hans. Eftir að hafa rætt málið við Bjarna telur Benedikt að um hafi verið að ræða klaufaskap og slaka dómgreind. „Það breytir því ekki að mín skoðun (og allra í þingflokknum) er sú að hann hefði átt að birta skýrsluna strax og hann fékk hana í hendur.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu í lokuðum hópi flokksmanna Viðreisnar á Facebook, sem Kjarninn hefur fengið afrit af.
Ráðgjafaráð Viðreisnar samþykkti í gærkvöldi stjórnarsáttmála sem gerir ríkisstjórn flokksins, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar, undir forsæti Bjarna, að veruleika.
Í færslunni segir Benedikt að ekki þurfi að fjölyrða um klúðrið að í kringum birtingu á skýrslunni um aflandseignir Íslendinga og skattaundanskot sé afar slæmt og sýni að nýrra vinnubragða sé þörf. „Þingflokkur okkar heyrði frá BB [Bjarna Benediktssyni] í dag og ég hygg að miðað við hans frásögn hafi verið um að ræða klaufaskap og slaka dómgreind en ásetning um feluleik, það breytir því ekki að mín skoðun (og allra í þingflokknum) er sú að hann hefði átt að birta skýrsluna strax og hann fékk hana í hendur. Einmitt þetta undirstrikar áherslur okkar um að hugsa hlutina upp á nýtt. Vinnubrögð af þessu tagi verður að uppræta.“
Benedikt, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segist hafa sett sig strax í samband við varaformann nefndarinnar, Brynjar Níelsson, um að boða til fundar í nefndinni hið snarasta. Hann segist líka hafa verið í sambandi við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem hafði óskað eftir fundi í nefndinni vegna skýrsluskilanna. „Fundurinn hefur þegar verið boðaður og verður haldinn næstkomandi fimmtudag vegna þess að óskað var eftir því af einum nefndarmanni að hafður yrði góður fyrirvari að fundinum. Skýrslan sjálf er hið þarfasta plagg og mikilvægt innlegg í umræðuna. Vegna þess að ég reikna með að fæstir séu búnir að lesa hana þá er rétt að undirstrika að hún fjallar ekki um neina einstaklinga,“ segir í stöðuuppfærslu Benedikts.
Skýrslunni skilað í september
Skýrslunni var skilað til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 13. september 2016. Hún var síðar kynnt sérstaklega fyrir Bjarna Benediktssyni 5. október. Alþingi var svo slitið 13. október vegna kosninga sem haldnar voru síðar í þeim mánuði en kallað aftur saman í byrjun desember og starfaði fram að jólum. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en síðastliðinn föstudag, 6. janúar.
Bjarni sagði í fréttum RÚV á laugardag að þingi hefði þegar verið slitið þegar hann fékk skýrsluna í hendur. Það reyndist ekki rétt og hann baðst afsökunar á ónákvæmum svörum sínum daginn eftir á sama vettvangi. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur farið fram á að umboðsmaður Alþingis skoði hvort að Bjarni hafi brotið gegn siðareglum ráðherra með því að birta ekki skýrsluna þegar hún var tilbúin.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að það hafi orðið stökkbreyting á flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar, og fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldaðist frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-földuðust á sama tímabili. Uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 nemur einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 nemur líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.