Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að hann gæti ekki hugsað sér verri ríkisstjórn en þá sem nú hefur verið samþykkt að mynda og er ekki viss um að hún nái að sitja út kjörtímabilið. Hann segist hafa verulega áhyggjur af því í hvað stefnir þar sem samsetning ríkisstjórnarinnar; hún samanstendur af Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð, sé sérlega óheppileg. „Viðreisn varð til upp úr Áfram-Icesave samtökunum og JÁ-ESB hópnum, sem að miklu leyti voru reyndar sömu hóparnir. Flokknum er haldið úti af fólki sem hefur verið áhrifamikið í viðskiptum á Íslandi undanfarin ár en er mjög langt frá því að vera á sömu línu og Framsókn varðandi forgangsröðun, t.d. varðandi skuldamál almennings, verðtryggingu og viðureign við erlenda kröfuhafa. Reyndar skilgreindi flokkurinn sig sem and-Framsóknarflokk, sérstaklega með vísan til Framsóknar áranna 2009-16. Björt framtíð virðist í flestum málum vera á svipuðum slóðum og Viðreisn enda flokkarnir búnir að koma fram sem einn eftir kosningar.“ Þetta kemur fram í viðtali við Sigmund Davíð á Eyjunni.
Forsætisráðherrann fyrrverandi, sem þurfti að segja af sér embætti 5. apríl síðastliðinn og tapaði formannskosningu í Framsóknarflokknum í byrjun október, segir að hann óttist enn fremur að stjórnarmynstrið muni ekki hafa góð áhrif á Sjálfstæðisflokkinn. „Flokkurinn [Viðreisn] er langt til hægri við Sjálfstæðisflokkinn á mörgum sviðum, og það á öllum röngu sviðunum. Áhrifin geta orðið ískyggileg. Við stjórnvölinn verður fólk sem heldur að frjálslyndi snúist aðallega um að tvær til þrjár verslanakeðjur fái að selja sem mest af erlendu kjöti og brennivíni.
Sigmundur Davíð hefur sérstaklega áhyggjur af því að skemmdir verði unnar á ýmsum grunnstoðum samfélagsins utan höfuðborgarsvæðisins. „Nú hef ég hreinlega áhyggjur af því að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar og byggðir landsins séu í verulegri hættu. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvernig Viðreisn og Björt framtíð hafa talað um þau mál og mér sýnist að þar eigi að láta til skarar skríða.
Á sama tíma bíður uppstokkun fjármálakerfisins og sala gígantískra verðmæta sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks náði að færa til ríkisins frá kröfuhöfum. Ég gæti ekki hugsað mér verri ríkisstjórn til að halda utan um þau mál. Þetta verða áfram áhugaverðir tímar í íslenskum stjórnmálum.“