Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar verður undirritaður í Gerðarsafni í Kópavogi klukkan 14:30 í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Á fundinum munu Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, kynna efni stjórnarsáttmálans og svara spurningum.
Stjórnarsáttmálinn var samþykktur innan flokkanna þriggja í gærkvöldi. Um fjórðungur stjórnar Bjartrar framtíðar greiddi atkvæði gegn stjórnarsáttmálanum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans kemur fram í stjórnarsáttmála flokkanna að peningastefnan verði endurskoðuð og niðurstaða í þeirri vinnu liggi fyrir innan árs. Þá verða búvörusamningar endurskoðaðir og miðað við að það verði gert á næstu tveimur árum, eða fyrir lok árs 2019.
Þá stefnir ríkisstjórnin að jafnlaunavottun og verður hún lögfest, og miðað þar við fyrirtæki með 25 starfsmenn og fleiri. Í því felst róttækt breyting sem á að miða að því að jafna út óútskýrðan launamun kynjanna á vinnumarkaði.
Samkvæmt heimildum Kjarnans verður unnið að því að koma á námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. Þá verður horft til þess að breyta sjávarútvegskerfinu. Í stað ótímabundins afnotaréttar auðlindarinnar verður skoðað að taka upp leigu á aflaheimildum til langs tíma, og þá horft til þess að afkomutengja breytinguna eins og frekast er unnt, til að tryggja stöðugra rekstrarumhverfi.
Í stjórnarsáttmálanum er síðan gert ráð fyrir að þingið muni ráða því hvort aðildarviðræður við Evrópusambandið eigi að halda áfram, og verður þingsályktunartillaga þess efnis lögð fram á síðari hluta kjörtímabilsins.