Einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins studdu ekki tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, um ráðherraskipan í nýrri ríkisstjórn. Birgir Ármannsson, sem tók við sem þingflokksformaður af Guðlaugi Þór Þórðarsyni í gær, segir að tillaga Bjarna hafi þó verið samþykkt með afgerandi hætti. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Þar er rætt við Harald Benediktsson, oddvita Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi. Hann segist sjálfur sáttur við að hafa ekki orðið ráðherra og að það hafi verið sameiginleg hugmynd hans og Bjarna að gera Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur að ráðherra, en hún skipaði annað sætið í kjördæminu. Ástæðan, að sögn Haraldar, var að hann vissi að formaður flokksins væri í vandræðum vegna kynjahalla. „Ég treysti Þórdísi afskaplega vel og vænti mikils af henni. Það er góður bragur á því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa haft tækifæri til að velja hana sem ráðherra,“ segir Haraldur við Morgunblaðið. Bjarni segir sjálfur að það hafi verið „lúxusvandamál“ að velja ráðherra úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins.
Tilkynnt var um ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar í gærkvöldi. Í henni munu sitja ellefu ráðherrar. Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Guðlaugur Þór Þórðarson verður utanríksiráðherra, Sigríður Andersen verður dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson verður ráðherra samgöngumála, byggðamála, sveitastjórnarmála og Kristján Þór Júlíusson verður menntamálaráðherra. Þá verður Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis. Því verða ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sex talsins en hinir tveir flokkarnir í ríkisstjórninni, Viðreisn og Björt framtíð, fá saman fimm ráðherra.
Benedikt Jóhannesson verður fjármálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Óttarr Proppé heibrigðisráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra.