Ýmsar breytingar verða gerðar á verkefnaskipan ráðuneytanna samhliða því að nýtt ráðuneyti Bjarna Benediktssonar er tekið við völdum. Þetta var gert með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta.
Málefni Seðlabanka Íslands munu flytjast með Bjarna úr fjármálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið. Aftur á móti munu verkefni hagskýrslugerðar og upplýsinga um landshagi, þar með talið Hagstofu Íslands, færast frá forsætisráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins.
Þá munu þjóðmenningarmál færast frá forsætisráðuneytinu og aftur til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en það munu málefni Vísinda- og tækniráðs einnig gera.
Málefni Þingvallaþjóðagarðs, nema Þingvallabæjarins sjálfs, munu færast frá forsætisráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins. Neytendamál munu heyra undir atvinnuvegaráðuneytið en ekki innanríkisráðuneytið, og verkefni byggðamála verða í innanríkisráðuneytinu en ekki atvinnuvegaráðuneytinu.