Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir að hann hefði viljað sjá ýmislegt í nýgerðum stjórnarsáttmála hefði verið orðað með afdráttarlausari hætti en gert var. Flokkur hans hefði hins vegar þurft að sætta sig við málamiðlanir þegar fyrir lá samstarf við aðra flokka sem hafa aðra stefnu. Tvennt hafi verið mikilvægast í stjórnarsáttmálanum og ríkisstjórnarsamstarfinu, annars vegar að þar sé opnað á breytingar og hins vegar sé mikilvægt hver fari með forræði hvers málaflokks í framtíðinni. Þetta kemur fram í viðtali við Benedikt í þættinum Þjóðbraut, sem verður á dagskrá á Hringbraut klukkan 21 í kvöld.
Í viðtalinu ræðir Benedikt einnig samband sitt við Óttarr Proppé, formann Bjartrar framtíðar, en þeir mynduðu órjúfanlegt bandalag strax eftir kosningarnar sem fram fóru 29. október í fyrra. Benedikt segir að hann hafi ekkert þekkt Óttarr fyrir kosningabaráttuna og að fyrir kosningar hafi þeir einungis hist á kosningabaráttutengdum atburðum. Daginn eftir kosningar, sunnudaginn 30. október, hafi Benedikt sent Óttarri sms-skilaboð sem í stóð: „Vaknaður?“ Óttarr hafi svarað til baka: „Er á fótum.“ í kjölfarið hringdi Benedikt í Óttarr og þeir stigu fyrstu skref í átt að bandalagi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Auglýsing