Jafnlaunavottun í fyrirtækjum með 25 starfsmenn eða fleiri verður fyrsta frumvarpið sem Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hyggst leggja fram á Alþingi. Slík vottun er tímabundin ráðstöfun til að útrýma launamun kynjanna, segir Þorsteinn við Morgunblaðið í dag.
„Þetta er vissulega íþyngjandi aðgerð, en við teljum hana nauðsynlega.“ Þorsteinn bendir á að það hafi ekki verið fyrr en með lagasetningu sem hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja lagaðist. Jafnlaunavottun hafi sama inntak og markmið, að jafna stöðu kynjanna varðandi kaup og kjör. Stórum vinnustöðum verður einnig skylt að gera sérstaka jafnréttisáætlun.
Þorsteinn segir það sína sannfæringu að kynbundnum launamun verði ekki útrýmt nema með aðgerðum í hverju fyrirtæki og stofnun fyrir sig.
Ætla má að það kosti um hálfa milljón króna fyrir fyrirtæki að fara í fyrstu úttekt á launum, en það verður gert með því að fara í gegnum allar launaupplýsingar, upplýsingar um ábyrgð og starfslýsingu fólks. Allt kallar þetta á ögun í launasetningu fyrirtækja, sem þurfi að vera gegnsæ og vel skipulögð. Þorsteinn segir að hann telji að innan skamms tíma muni myndast skilningur á nauðsyn vottunar, og stjórnendum fyrirtækja muni þykja hún jafn sjálfsögð og að þar sé algengur öryggisbúnaður.