Skýrsla starfshóps um aflandseignir Íslendinga verður mikilvægt innlegg inn í þá vinnu sem framundan er hjá stjórnvöldum, en sögðu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að „markvisst skuli unnið gegn skattundanskotum og skattaskjólum.“
Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðhera við fyrirspurn Morgunblaðsins. Fjármálaráðherrann er einnig spurður hvað hann hyggist gera með skýrsluna og segir að að vegna þess hversu skammur tími er liðinn frá því að hann tók við embætti hafi ekki náðst að kortleggja efnisþætti skýrslunnar þannig að unnt sé að segja til um framhaldið á þessari stundu.
Ráðuneytið hefur engin gögn undir höndum um að tvísköttunarsamningar hafi verið misnotaðir, eins og kemur fram í skýrslunni. Hins vegar sé Ísland virkur þátttakanadi í aðgerðaráætlun G20 og OECD gegn skattsvikum og skattaskjólum. Lokaáfanginn í þeim aðgerðum verður sameiginleg endurskoðun á öllum tvísköttunarsamningum þátttökjuríkja, með viðauka sem skrifað verður undir í júní.
„Inntak þess viðauka er að skattyfirvöld fái frekari verkfæri til að beita í baráttunni gegn misnotkun tvísköttunarsamninga sem gangi framar eða komi til viðbótar þeim sem þegar eru til staðar í samningunum. Ísland, Holland og Lúxemborg eru þátttakendur í umræddri áætlun með um og yfir 100 öðrum ríkjum. Í ljósi þess er endurskoðun á fyrrnefndum tvísköttunarsamningum Íslands þegar í gangi, þó að óbeint sé, í þeim tilgangi að hamla gegn misnotkun þeirra,“ segir fjármálaráðherra.