Þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið verður lögð fram á þessu kjörtímabili. „Þetta er orðað þannig í stjórnarsáttmálanum að „komi fram“. Það er eins og þarna sé einhver mistería um hvort einhverjum detti það í hug. Ég get þá bara upplýst það hér og nú að hún mun koma fram,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar.
Þetta sagði Jón Steindór í þættinum á Sprengisandi í morgun. Hann sagðist jafnframt leggja þann skilning í orðalagið undir lok kjörtímabilsins, eins og það er orðað í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, að það þýði síðasta ár kjörtímabilsins.
Jón Steindór segist ekki reikna með að styðja þingsályktunartillögu sem yrði lögð fram fyrr, því hann líti svo á að hann hafi skuldbundið sig til að styðja ríkisstjórnarsamstarfið og þá málamiðlun sem náð var.
„Ég er þátttakandi núna í ríkisstjórn sem að hefur gert þetta samkomulag og ég virði það samkomulag, en ég ætlast að sama skapi til þess af ríkisstjórninni og öllum þingmönnum, líka sjálfstæðisþingmönnunum, að þeir muni greiða götu þess að slíkt mál fái framgang á síðasta ári kjörtímabilsins og muni ekki leggja stein í götu þess.“
Jón Steindór sagði einnig í þættinum að orðalagið um Evrópumál í stjórnarsáttmálanum hafi ekki verið óskaniðurstaða Viðreisnar. Flokkurinn hafi hins vegar metið það þannig að ekki yrði lengra komist og að þetta væri niðurstaða sem hægt væri að lifa með.