Átta ríkustu einstaklingar heimsins eiga meiri peningaleg verðmæti en helmingur jarðarbúa samkvæmt nýjustu skýrslu góðgerðarsamtakanna Oxfam, sem árlega greinir skiptingu auðs í heiminum og kynnir niðurstöður sínar á fundi World Economic Forum í Davos í Sviss.
Skýrslan miðar við eignastöðuna eins og hún var í lok árs 2015. Átta ríkustu einstaklingar heimsins voru þá Bill Gates, stofnandi Microsoft, Amnacio Ortega, stofnandi Zara, Warren Buffett, fjárfestir og forstjóri Berkshire Hathaway, Carlos Slim, eigandi fjarskiptarisans Grupo Carso, Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, Larry Ellison, forstjóri Oracle, og Michael Bloomberg, stofnandi og eigandi Bloomberg. Sex af átta ríkustu mönnum heims eru búsettir í Bandaríkjunum, og þar af eru tveir nágrannar og búsettir við sama vatnið, Lake Washington á Seattle svæðinu, þeir Bill Gates og Jeff Bezos. Eignastaða þeirra tveggja hefur reyndar breyst mikið frá því árið 2015, og þá sérstaklega Bezos. Hann er nú metinn á tæplega 70 milljarða Bandaríkjadala en ekki 45 milljarða eins og segir í skýrslu Oxfam.
Eignir þessara átta einstaklinga eru samtals á við eignir 3,6 milljarða manna á jörðinni.
Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC segir breski hagfræðingurinn Gerard Lyons að það gefi ekki alltaf rétt mynd af stöðu mála, að einblína á þennan mikla mun þegar kemur að ríkidæmi einstaklinga.
Til dæmis hafi mikill árangur náðst í baráttunni við fátækt í heiminum á undanförnum árum, og hafi sjaldan eða aldrei færri búið við sára fátækt í heiminum eins og nú.
Bill Gates og Warren Buffett hafa báðir ákveðið að gefa meira en 95 prósent af eignum sínum til góðgerðarstarfs.
Hins vegar sé það rétt að draga fram mikla misskiptingu auðs, þar sem það nýtist í umræðum um viðskiptamódel fyrirtækja og hvort þau séu fyrst og fremst að nýtast æðstu stjórnendum og hluthöfum frekar en starfsfólki. Þetta sé eitthvað sem þurfi sífellt að ræða um að meta.