Gert er ráð fyrir því að fundur verði haldinn í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í þessari viku til þess að ræða um skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, óskaði eftir því þann 7. janúar síðastliðinn að fundur yrði haldinn í nefndinni vegna málsins. Fundurinn hefur hins vegar ekki verið boðaður.
Katrín segir í samtali við Kjarnann að hún muni senda ítrekun um málið í dag, enda sé búið að tefja málið. Upphaflega hafi átt að halda fundinn síðastliðinn fimmtudag en því var frestað meðal annars vegna þess að óskað var eftir því að fundurinn yrði sendur út í beinni útsendingu á vef Alþingis. Það síðasta sem nefndarmenn hafi heyrt var að fundurinn yrði haldinn öðru hvoru megin við helgina. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist í samtali við Kjarnann gera ráð fyrir að fundurinn verði haldinn í vikunni, en ekkert fundarboð hafi borist.
Búið var að staðfesta að Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, gæti mætt á fundinn og svarað fyrir skýrsluna þrátt fyrir að hann sé ekki lengur fjármálaráðherra.
Logi segir að hann hafi skilið það sem svo að Bjarni muni mæta fyrir nefndina. Fundurinn verði tvíþættur þegar hann verður haldinn, annars vegar muni Bjarni mæta og svara spurningum um innihald skýrslunnar og aðdraganda birtingar hennar, og hins vegar muni skýrsluhöfundar mæta fyrir nefndina.
Benedikt Jóhannesson er ennþá formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, en hann er nú orðinn fjármálaráðherra og því þarf að kjósa nýjan formann. Tveir fulltrúar í nefndinni til viðbótar eru orðnir ráðherrar og munu því einnig víkja úr nefndinni, Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. Brynjar Níelsson er varaformaður nefndarinnar, en hvorki náðist í hann né Gylfa Ólafsson, aðstoðarmann fjármálaráðherra.